Hagnaður Glitnis sjóða hf. eftir skatta fyrstu sex mánuðina 2008 nam 284 milljónum króna samanborið við 6,1 milljón fyrstu sex mánuðina 2007.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu Glitnissjóða hf., sem rekur Verðbréfasjóði Glitnis, Fjárfestingarsjóði Glitnis og Fagfjárfestasjóði Glitnis.

Þá kemur fram að rekstrartekjur námu 1.054 milljón króna samanborið við 716 milljónir árið áður og jukust um 47,3%.

Rekstrargjöld námu 722 milljónum króna samanborið við 708 milljónir fyrstu 6 mánuði ársins 2007.

Heildareignir félagsins námu 971 milljón króna en voru 764 milljónir í ársbyrjun. Eigið fé í lok júní nam 642 milljónum króna en var 358 milljónir í ársbyrjun.

Eiginfjárhlutfall félagsins, sem er reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 157,2% í lok júní en þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8,0%.

Fjármunir sjóða í stýringu Glitnis sjóða hf. námu 255.124 milljónum króna í lok júní 2008 samanborið við 238.075 milljónir króna í árslok 2007, jukust um 7,16%.

Í tilkynningunni kemur fram að Glitnir sjóðir hf. sér um stýringu og rekstur á sex sjóðsdeildum í Verðbréfasjóðum Glitnis, fimm deildum í Fjárfestingarsjóðum Glitnis og þremur deildum í Fagfjárfestasjóðum Glitnis. Einnig sér félagið um stýringu á tveimur sjóðum fyrir Glitnir Asset Management S.A. í Lúxemborg.

Hrein eign í stýringu Glitnis sjóða hf. í Lúxemborg eru um tveir milljarðar króna í lok júní 2008.