Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. hefur verið falið að annast formlegt og opið söluferli sem lýtur að mögulegri sölu á þriðjungshlut Íslandsbanka í Sjóklæðagerðinni hf., en fyrirtækið er að meirihluta í eigu EGUS Inc.

Söluferlið hefst formlega mánudaginn 1. nóvember kl. 12.00.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en söluferlið verður opið öllum áhugasömum fjárfestum sem teljast fagfjárfestar samkvæmt lögum  nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti eða búa yfir fullnægjandi þekkingu og reynslu, og geta sýnt fram á eiginfjárstöðu umfram 300 milljónir króna.

Fram kemur að seljandi áskilji sér þó rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu vegna samkeppnissjónarmiða eða í þeim tilvikum þegar fyrir hendi eru lagalegar takmarkanir á því að fjárfestir kaupi verulegan eignarhlut í félaginu.