*

föstudagur, 6. desember 2019
Innlent 7. júlí 2019 14:05

Sjóræningjarnir ruddu veginn

Forstjóri Sýnar segir ólöglegt niðurhal hafa rutt veginn fyrir streymisveitur. Hann segir mikla samlegð milli sviða Sýnar.

Júlíus Þór Halldórsson
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, bendir á að í árdaga ólöglegs niðurhals hafi það oft einfaldlega verið eina leiðin til að nálgast alþjóðlegt afþreyingarefni.
Eva Björk Ægisdóttir

Ólöglegt niðurhal hefur lengi verið þyrnir í augum rétthafa og dagskrárgerðarfyrirtækja. Baráttan við leyfislausa fjölföldun hefur þó litlu skilað í gegnum árin, og síður eins og Pirate bay og Deildu.net lifa góðu lífi þrátt fyrir lögbann hér á landi.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir að það sem helst hafi dregið úr umfangi ólöglegrar neyslu afþreyingarefnis sé bætt löglegt aðgengi að efninu. Svo virðist sem það að komast hjá því að greiða fyrir efnið hafi ekki verið drifkrafturinn á bak við ólöglegt niðurhal margra, heldur einfaldlega þægindin, sem átt hafi sér enga hliðstæðu í heimi hinna löghlýðnu.

Þetta hefur þó breyst með tilkomu streymisveitna á borð við Netflix og Spotify. „Löglegur aðgangur að alþjóðlegu efni hefur batnað svo gríðarlega. Þegar þessar síður fyrir ólöglegt niðurhal byrjuðu var það oftast eina leiðin til að nálgast alþjóðlegt efni þegar þér hentaði. Það má í raun segja að þær hafi rutt veginn fyrir löglega dreifingu streymisveitnanna. Í dag geta allir orðið sér úti um þetta efni með löglegum hætti á viðráðanlegu verði. Mánaðaráskrift að Spotify kostar minna en geisladiskur úti í búð. Mánaðargjald Netflix er á við að leigja tvær bíómyndir,“ segir Heiðar.

Eina alhliða fjölmiðlafyrirtækið á landinu
Mikil samlegð er milli styrks Sýnar á sviði upplýsingatækni og starfsemi samsteypunnar á sviði fjölmiðlunar og dagskrárgerðar, að sögn Heiðars, enda þarf að koma efninu til fólks þegar búið er að framleiða það. Þannig segir hann Sýn vera eina alhliða fjölmiðlafyrirtæki landsins, í þeim skilningi að framleiða sjónvarps- og útvarpsefni, selja að því aðgang og koma því síðan til skila. Fyrirtækið stjórnar þannig virðiskeðjunni frá upphafi til enda.

„Við eigum eina landsdekkandi sjónvarps- og útvarpsdreifikerfið, auk þess að selja internetaðgang. Okkar hagsmunir eru því fyrst og fremst þeir að dreifa sjónvarpi og útvarpi á þessa þrjá mismunandi vegu. Á sama tíma erum við líka í dagskrárgerð.“ Hagsmunir fyrirtækisins geti því stangast á þegar dreifileiðirnar eru notaðar til að nálgast dagskrárefni í samkeppni við eigið efni. „Við erum að rækja okkar skyldu með því að hleypa öllum inn á dreifikerfið.“

Ein af þeim leiðum sem Sýn hefur sýnt aukinn áhuga til að veita sem sveigjanlegasta þjónustu er svokallað pay-perview, sem tíðkast víða erlendis, þar sem notendur staðgreiða einn tiltekinn dagskrárlið, í stað þess að þurfa að kaupa áskrift að allri efnisveitunni. „Við höfum verið að gera alls konar tilraunir, sérstaklega með íþróttir og beinar útsendingar á þeim. Við bjóðum í síauknum mæli upp á að borga fyrir það samkvæmt áhorfi.“ Enn sem komið er hefur slíkt fyrirkomulag ekki verið í boði fyrir dagskrárefni fyrirtækisins, en Heiðar segir það að sjálfsögðu vera í skoðun.

„Við erum alltaf að reyna að nýta þær tæknibreytingar sem eru að eiga sér stað til að nálgast viðskiptavininn betur. Við viljum ekki vera verkfræðidrifið fyrirtæki og bjóða bara upp á allt eða ekkert. Við ætlum frekar að komast að því hvað hver viðskiptavinur vill og einbeita okkur að því að mæta því.“ Tæknin sé ekki markmið í sjálfu sér, heldur aðeins tæki til að bæta upplifun viðskiptavinarins.

Sérsniðnar fréttaveitur og fjölmiðlun
Önnur leið til að sérsníða þjónustu fyrirtækisins að hverjum og einum er að fréttavefur Vísis sýni notendum fyrst fréttir sem snerta þá beint. Slík þjónusta er ekki hafin enn, en Heiðar segir ljóst að hún sé framtíðin. Með tíð og tíma muni kerfið læra á hvað hver einstaklingur hefur mestan áhuga á, og samþætta í þeim tilgangi upplýsingar um notkun allrar þeirrar þjónustu sem Sýn hefur upp á að bjóða. Samlegðaráhrif heildstæðrar fjölmiðlaveitu eins og Sýnar verði því mikil.

„Þetta er náttúrulega bara eitthvað sem þarf að gerast. Gáttin sem þú sérð mun þá hætta að líkjast hefðbundnu dagblaði og mun þess í stað mótast af þér og þínum áhugamálum hverju sinni. Þetta yrði þó auðvitað valkvætt, og myndi virka með innskráningu. Ef þú kýst að nota þitt auðkenni í viðskiptum við okkur þá getum við þjónustað þig betur.“ Það verði svo útfærsluatriði, og hugsanlega val hvers og eins, hvort ákveðinn hluti fréttaveitna, sem dæmi, verði eins fyrir alla notendur. „Það sem heldur okkur saman sem samfélagi er umræðan, dægurmálin og menningin. Það er mjög jákvætt að það sé einhver sameiginlegur grunnur þar.“

Nánar er rætt við Heiðar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.