Eins og greint hefur verið frá þá hlýtur Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár , Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.Af því tilefni er Hermann í ítarlegu viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Samkvæmt níu mánaða uppgjöri Sjóvár nam hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta tæpum 1,4 milljörðum króna og hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta tæpum 1,5 milljörðum króna. Margir líta á tryggingafélög sem fjárfestingafélög fyrst og síðast.

Spurður hvort hann geti afsannað þessa tilgátu svarar Hermann: „Í okkar tilfelli er þetta ekki reyndin. Í átján ársfjórðunga í röð höfum við skilað jákvæðri afkomu vátryggingamegin, sem er einstakt. Er þetta vegna þess að við erum með hærri verð? Svarið við því er nei, því á sama tíma og hagnaður hefur verið af vátryggingarekstrinum hefur félagið verið að vaxa og það langt umfram markaðinn. Ástæðan fyrir þessum árangri er ábyrgur rekstur, gott áhættumat og hátt þjónustustig. Það sem öllu máli skiptir er að vöxturinn hefur verið mjög heilbrigður síðustu þrjú ár, þ.e. vöxtur iðgjalda umfram vöxt tjóna hefur verið jákvæður.

Ávöxtun fjárfestingareigna er eitthvað sem við þurfum sannarlega að sinna og eru ein grunnstoðin. Við þurfum að ávaxta iðgjöldin og sjá til þess að við getum staðið við okkar skuldbindingar og ég tel að við höfum staðið okkur vel í þessum efnum. Í fjárfestingum geta sveiflurnar verið miklar því þær eru háðar efnahagslífinu. Ég leyni því ekkert að hér áður, og þetta á bæði við um rekstur banka og tryggingafélaga, fannst mér afstaða stjórnenda stundum vera alltof léttvæg gagnvart grunnrekstrinum. Hann var oft illa settur því verið var að einblína á fjárfestingahlutann. Tryggingafélög voru kannski með samsett hlutfall í 120 til 130% og það gengur auðvitað alls ekki. Vátryggingareksturinn verður að vera heilbrigður. Við viljum sem dæmi að samsett hlutfall sé að jafnaði í kringum 95%. Það þýðir að þegar vel árar í tryggingarekstri þá er hlutfallið kannski í kringum 90% en þegar gefur á bátinn getur það verið í kringum 100%.“

Óheimilt að greiða arð

Hermann segir að deila megi um það hversu mikið félagið eigi að ávaxta fyrir sína eigendur.

„Er það ekki alveg eins þeirra að fá arðgreiðslur af sinni eign og ávaxta síðan sjálfir. Það er alltaf matsatriði hvar styrkleiki tryggingafélags á að liggja. Eins og staðan er í dag má færa rök fyrir því að fjárhagslegur styrkleiki Sjóvár sé of mikill. Er það vegna tilmæla um að félagið greiði hvorki arð né kaupi eigin bréf á þessu ári vegna óvissu í efnahagsmálum. Þetta voru tilmæli opinberra eftirlitsaðila til allra tryggingafélaga í Evrópu.

Að sjálfsögðu hlítum við þessu en þetta varð til þess að hætt var við tæplega tveggja milljarða arðgreiðslu síðasta vor. Sú fjárhæð bætist þar með við eigið féð sem var þegar mjög sterkt. Eitt verkefna okkar er að gæta hagsmuna eigenda okkar og koma til móts við þá með réttum hætti og í takt við útgefna stefnu. Þeir, eins og til dæmis skuldabréfaeigendur, gera kröfu um að fá rentu af sinni eign. Ég tala nú ekki um eign sem er á hlutabréfamarkaði og þar með háð áhættu og meiri áhættu en af skuldabréfum. Sem betur fer höfum við ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni í rekstri á árinu en það var það sem eftirlitsaðilar höfðu áhyggjur af — að það yrði allsherjar hrun vegna heimsfaraldursins.“

Sjóvá er arðgreiðslufélag

Hermann segir að í staðinn fyrir að leggja blátt bann við arðgreiðslum hefði átt að meta styrk hvers félags fyrir sig til að takast á við áföll. Félög sem standi á styrkum fótum eigi að sjálfsögðu að fá að greiða eigendum sínum arð, atvinnulífið treysti á að geta sótt fjármagn til almennings og það er í sjálfsögðu ekki í boði nema gegn loforði um ávöxtun í samræmi við áhættu. Hann segir að þótt félagið hlíti tilmælunum þá sé það verkefni stjórnenda félagsins að sjá til þess að eigendurnir fái réttmætan arð af sinni fjárfestingu á næstu misserum.

„Þegar við vorum skráð á markað þá kynntum við okkur til leiks sem arðgreiðslufélag. Það er það sem einkennir tryggingafélög,“ segir Hermann. „Eins og ég hef áður nefnt þá eru okkar viðskiptavinir að fá um 1,2 milljarða króna endurgreiðslur í formi stofnendurgreiðslna og niðurfellingu iðgjalda, sem er frábært og það sem við viljum. Eftir situr samt eigandinn, sem fær engar arðgreiðslur, sem er ekki réttlátt að mínu mati. Í okkar eigendahópi eru ekki einungis fagfjárefstar og lífeyrissjóðir heldur einnig einstaklingar. Við höfum fengið símtöl frá þessu fólki sem er mjög ósátt við að fá ekki arðgreiðsluna, sem það telur sig eiga rétt á. Stórir fjárfestar hefðu að sjálfsögðu einnig gjarnan viljað fá þessa greiðslu til þess að ávaxta féð, koma því í vinnslu í samfélaginu, sérstaklega í því árferði sem nú ríkir.“

Viðtalið við Hermann Björnsson má lesa í heild í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem var að koma út.