Enskur dómstóll hefur hafnað málatilbúnaði Jóhannesar Rúnars Jóhannessonar hrl., formanni slitastjórnar Kaupþings banka, um að þarlendir dómstólar hafi ekki lögsögu í skaðabótamáli Vincents Tchenguiz gegn þeim fyrrnefnda. Tchenguiz fer fram á 2,2 milljarða punda skaðabótakröfu.

Jóhannes hélt því fram að málshöfðun þess síðarnefnda gegn sér gæti ekki verið tekin fyrir í Englandi, enda tengdist málið uppgjöri á slitabúi Kaupþings banka sem íslenskir dómstólar hefðu einir lögsögu yfir. Á þetta var ekki fallist.

Dómstóllinn segir að málið varði atburði sem áttu sér stað á enskri grundu og verði því teknir fyrir af ensku réttarkerfi. Hins vegar var viðurkennt að enskir dómstólar hefðu ekki lögsögu yfir þrotabúi Kaupþings, enda geri íslensk gjaldþrotalög ráð fyrir því að íslenskir dómstólar hafi einir lögsögu yfir þeim. Tchenguiz hyggst bera þetta atriði undir Mannréttindadómstól Evrópu.

„Rétturinn hefur fallist á að kröfur mínar varða atburði sem áttu sér stað í Englandi og verða því réttilega bornir undir og leiddir til lykta af enskum dómstólum. Jóhannes Jóhannsson, sem er meðlimur í slitastjórn Kaupþings, þarf nú að skýra fyrir enskum dómstólum hlutverk hans í því sem kom fyrir mig og fyrirtækin mín og ég hyggst sækjast um áfrýjunarleyfi til að sjá til þess að mál Kaupþings þurfi að fara fyrir enska dómstóla líka," er haft eftir Tchenguiz í yfirlýsingu.

Voru ranglega handteknir

Forsaga málsins er sú að Vincent Tchengzuiz höfðaði mál gegn Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton og þeim Stephen Akers og Hossein Hamedani. Ástæðan mun vera sú að félög í eigu Tchenguiz voru sökuð um að framvísa fölsuðum pappírum þegar þau fengu lán hjá Kaupþingi.

Í kjölfarið hafi efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar. Serious Fraud Office, hafið rannsókn á málinu en komist að þeirri niðurstöðu að þær ásakanir væru tilhæfulausar. Voru Tchenguiz því greiddar bætur sem námu 600 milljónum króna fyrir óréttmæta handtöku. Var hann í kjölfarið beðinn afsökunar á handtökunni. Bræðurnir telja Jóhannes og fleiri bera ábyrgð á rannsókninni yfir sér.