Héraðsdómur vísaði í dag frá skaðabótamáli þrotabús Wow Air gegn Títan Fjárfestingarfélagi, fyrrverandi eiganda þess og Wow Air, Skúla Mogensen, og fyrrverandi stjórnarmönnum flugfélagsins, þeim Liv Bergþórsdóttur, Helgu Hlín Hákonardóttur, Davíð Mássyni og Ben Baldanza, sökum vanreifunar. Úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur má finna hér.

Þrotabúinu er gert að greiða Skúla og Títan Fjárfestingafélagi hvorum um sig 2,1 milljón króna í málskostnað. Auk þess ber þrotabúinu að greiða Liv, Helgu Hlín og Davíð 1,4 milljónir króna hverju um sig, og Ben Baldanza 4,2 milljónir króna í málskostnað.

Lögmennirnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson eru skiptastjórar þrotabús Wow Air en auk fyrrnefndra var erlendum tryggingarfélögum einnig stefnt vegna stjórnendatryggingar Wow Air. Þrotabúið hafði krafist þess að hin stefndu greiði 3 milljónir dala í skaðabætur, eða yfir 400 milljónir króna.

Sjá einnig: Krefst 3 milljóna dala frá Skúla og stjórn Wow

Þrotabúið höfðaði málið gegn stjórnarmönnum Wow vegna ætlaðrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi þeirra í tengslum við viðskipti um kauprétti á fjórum Airbus-flugvélum af gerðinni A321. Í tilviki Títans byggðist krafa þrotabúsins á því að Skúli hafi auðgast með óréttmætum hætti á kostnað Wow Air.

Í greinargerð sinni skoruðu Skúli og Títan á þrotabúið að leggja fram öll gögn sem staðfestu hver hafði í raun verið afrakstur af sölu flugvélanna fjögurra. „Af greinargerð þeirra varð skýrlega ráðið að þeir vefengdu að stefnandi hefði einungis fengið í sinn hlut þá fjárhæð sem greint var frá í stefnu og að áskorunin væri sett fram af þeirri ástæðu.“

Í úrskurðinum segir að þrátt fyrir að þrotabúið hafi lagt fram nokkur skjöl undir rekstri málsins, þá hafi það ekki lagt fram kaupsamninga við Air Canada um framangreindar farþegaþotur og raunar engar greiðslukvittanir.

„Að mati dómsins var brýnt að þrotabúið legði umrædda samninga við Air Canada fram í málinu ásamt greiðslukvittunum, enda byggist kröfugerð hans alfarið á útreikningum sem tóku mið af því að hann hefði fengið tiltekna fjárhæð í sinn hlut vegna vélanna fjögurra á grundvelli þessara samninga.

Það hvílir á stefnanda að færa sönnur á ætlað tjón sitt sem og ætlaða óréttmæta auðgun stefnda Títan Fjárfestingafélags ehf., en eins og áður er rakið byggir stefnandi á því að umfang auðgunar téðs stefnda hafi verið samsvarandi fjárhæð og fyrrnefnt tjón WOW air af áðurnefndum kaupréttarviðskiptum.“

Þar sem þrotabúið lagði ekki fram umrætt gögn „og er af fyrirliggjandi gögnum ekki ljóst hvort hann varð fyrir því tjóni sem hann staðhæfir“ taldi dómurinn óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.