Verðtryggðar eignir Landsbank­ans jukust um rúmlega 22 milljarða umfram verðtryggðar skuldir á fyrri helmingi árs. Verðtryggingar­jöfnuðurinn nemur nú samtals um 150 milljörðum króna. Í ársreikn­ingi bankans segir að reynt sé að draga úr skekkjunni með því að auka óverðtryggðar lánveitingar og að auka verðtryggðar innstæður.

Til samanburðar er verðtrygg­ingajöfnuður Arion jákvæður um rúma 48 milljarðara og um 9,8 milljarða hjá Íslandsbanka. Í árshlutareikningi Íslandsbanka kem­ur fram að 1% hækkun á vísitölu neysluverðs leiði til 98 milljóna króna tekna og 1% lækkun leiði til samsvarandi tekjutaps. Sé þetta heimfært yfir á Landsbankann nema tekjur við 1% hækkun vísitöl­unnar um 1,5 milljörðum króna.

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og markaðs-­ og fjárstýringasviðs hjá Landsbankanum, segir hækk­un verðtryggingrajafnaðar frá ára­mótum skýrast af sölu Regins. Við það færðust lán til félagsins undan bankasamstæðunni yfir í að vera markaðslán. Yfir lengra tímabil hafi verðtryggð lán aukist mun minna en verðtryggðar lánveitingar, sem skýri að hluta misvægið. Enn frem­ur benda Landsbankamenn á að mikið eigið fé leiði til þess að ein­hvers staðar komi skekkjan fram eignamegin. Heyra má á Hreiðari og Steinþóri Pálssyni, bankastjóra, að þeir hafa ekki miklar áhyggjur af jöfnuðinum og segja að stærðin jafnist út yfir lengri tíma, þar sem nafnvextir haldi í raunvaxtastig.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlega úttekt á árshlutareikningum viðskiptabankanna þriggja. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.