Þeir Kormákur Arthursson og Sigurbjörn Edvardsson, sem báðir eru nýútskrifaðir úr menntaskóla, hafa stofnað fyrirtæki sem hefur það að markmiði að skapa indverskum fórnarlömbum sýruárása atvinnutækifæri. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Fyrirtækið heitir Krummispice og fá fórnarlömbin tækifæri til atvinnu með pökkun og sölu krydds á vestrænum mörkuðum. Í samtali við Morgunblaðið segir Kormákur hugmyndina hafa kviknað þegar hann heyrði sagt frá Fiðrildafögnuði UN Women í Kastljósinu árið 2013.

Þar hafi verið sögð saga konu sem varð fyrir sýruárás af hendi eiginmanns síns og flutti út með dóttur sína í kjölfarið. Dóttirin hafi hins vegar veikst og konan hafi neyðst til að flytja aftur inn til eiginmannsins þar sem hún hafði ekki efni á lyfjum fyrir dótturina.

Tilgangur fyrirtækisins, sem mun selja lífræn, fair-trade indversk krydd í neytendaumbúðum, er að veita konum í samskonar stöðu tækifæri til að afla eigin tekna og brjótast þannig út úr ömurlegum vítahring. Reikna félagarnir með að fyrstu pakkningarnar kunni að birtast í íslenskum verslunum um mitt sumar.