*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 20. maí 2017 17:03

Skarpari línur í leyfisveitingum

Sjávarútvegsráðherra segir brýnt að gera heildstæða úttekt á því hvaða áhrif aukið fiskeldi í sjó hefur á lífríkið hér við land.

Trausti Hafliðason
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Tíminn verður að leiða í ljós hvort takmarkanir verða settar á eignarhald erlendra aðila í fiskeldisfyrirtækjum að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra. Hún segir koma til greina að draga skarpari línur um skilyrði fyrir leyfisveitingum og þá telur hún „góð rök hníga að því að tengja leyfi til fiskeldis við geldlax í framtíðinni."

Til þess að stjórnvöld geti farið í frekari stefnumörkun varðandi fiskeldi er brýnt að gera heildstæða úttekt á því hvaða áhrif aukið fiskeldi í sjó hefur á lífríkið hér við land. Þetta kemur fram í svari Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, varaþingmanns VG.

Í úttekt Viðskiptablaðsins sem birtist fyrir ári síðan kom fram að í gildi væru starfsleyfi fyrir 26 þúsund tonna framleiðslu á ári. Að stærstum hluta eru þetta fyrirtæki sem eru í laxeldi. Það að hafa starfsleyfi er ekki það sama og að ala lax enda tekur langan tíma að koma laxeldi í sjó af stað. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Landssambands fiskeldisstöðva nam framleiðsla í laxeldi ríflega 3 þúsund tonnum árið 2015 og um 8 þúsund tonnum í fyrra. Gert er ráð fyrri því að framleiðslan á þessu ári verði um 11 þúsund tonn.

160 þúsund tonn?

Samkvæmt því sem kom fram í úttekt blaðsins í maí í fyrra höfðu fyrirtæki í laxeldi sótt um eða voru að íhuga að sækja um leyfi fyrir um 50 þúsund tonnum í viðbót.  Ennfremur kom fram að ef þær áætlanir næðu fram að ganga yrðu eftir nokkur ár í gildi starfsleyfi fyrir tæplega 80 þúsund tonna framleiðslu á eldislaxi á ári. Ásóknin í þessi leyfi er greinilega mjög mikil því í fyrirspurn sinni talar Bjarni um að nú stefni í að um 160 þúsund tonn af laxi verði alin hér á landi á næstu árum.

Fjölmargir stangveiðimenn og hagsmunaaðilar tengdir laxveiði hafa um árabil gagnrýnt eldi í opnum sjókvíum á norskum ógeldum laxi. Gagnrýnin hefur helst beinst að hættu á erfðamengun þegar laxar sleppa úr kvíum og geta blandast villta íslenska laxastofninum og mengun vegna laxalúsar, sem getur verið skaðleg villtum seiðum sem ganga úr ám til sjávar.

Engin fagleg úttekt

Bjarni spurði hvort gerð hefði verið fagleg úttekt á samlegðaráhrifum stóraukins fiskeldis í sjó hér við land á lífríki og, ef svo væri ekki, hvort ráðherra myndi láta gera slíka úttekt áður en fleiri slík leyfi verða veitt?

„Ekki hefur farið fram heildstæð fagleg úttekt á áhrifum aukins fiskeldis í sjó á lífríki hér við land," segir í svari Þorgerðar Katrínar. „Fiskeldi í sjó fór ekki að vaxa að ráði hér við land fyrr en á árinu 2016. Nú eru áform um verulega aukningu fiskeldis í sjó. Veitt hafa verið leyfi fyrir auknu eldi en önnur verkefni eru í ferli til mats á umhverfisáhrifum. Í heild má telja að þeir innviðir sem til staðar eru og uppbygging þeirra hafi ekki haldist í hendur við þá hröðu uppbyggingu og magn framleiðslu sem áform eru um að framleiða hér á landi og á því þarf að taka."

Í fyrirspurn Bjarna er Þorgerður Katrín spurð að því hversu mörg fiskeldisleyfi hún telji að eitt og sama fyrirtækið eigi að geta haft að hámarki? Ráðherra svarar því til að nú sé að störfum starfshópur um stefnumörkun í fiskeldi, sem muni fjalla um veitingu fiskeldisleyfa.

„Ráðherra telur að vel komi til greina að draga skarpari línur um skilyrði fyrir leyfisveitingum," segir í svari Þorgerðar Katrínar. „Í því sambandi skulu umhverfissjónarmið ávallt vera í forgrunni. Þegar greinargerð starfshópsins liggur fyrir mun ráðherra hafa forsendur til þess að taka afstöðu til málsins."

Þorgerður Katrín var einnig spurð að því hvort hún myndi stuðla að því að hér á landi yrðu settar reglur um eignarhald fiskeldisfyrirtækja líkt og gert hefði verið í Færeyjum og séu í gildi varðandi eignarhald í sjávarútvegi hérlendis?

„Fyrir liggur að erlend fiskeldisfyrirtæki hafa fjárfest í íslensku fiskeldi," segir ráðherra í svari sínu. „Þessir aðilar hafa fjármagnað uppbyggingu fiskeldis þegar fjármagn til slíkra fjárfestinga var ekki í boði hérlendis. Jafnframt hafa þessir aðilar miðlað af reynslu sinni og þekkingu og nýtt viðskiptasambönd sín í rekstri fiskeldis hér á landi. Engum vafa er undirorpið að framþróun íslensks fiskeldis undanfarin ár byggist á þessari þátttöku erlendu aðilanna. Ekki eru uppi áform um að banna erlenda fjárfestingu í fiskeldi, en mikilvægt er að tryggja að löggjöf um þessi efni verði skýr og ótvíræð. Tíminn verður að leiða í ljós hvort tilteknar takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila eða takmarkanir á atkvæðarétti þeirra í rekstri fiskeldisfyrirtækja verði settar hérlendis."

Geldlax í framtíðinni

Eins og áður sagði hefur gagnrýni á uppbyggingu laxeldis hérlendis að stórum hluta beinst að því að hér séu verið að ala ógelda norskættaðir laxa. Bjarni spurði Þorgerði Katrínu að því hvort hún myndi „beita heimild í lögum til að fyrirskipa að notaðir verði geldir laxar til eldis í sjó hér við land í ljósi þess að í það stefnir að um 160.000 tonn af laxi verði alin hér?"

Þorgerður Katrín segir ekki tímabært að svara spurningunni með afgerandi hætti fyrr en áhættumat hafi farið fram og starfshópur um stefnumörkun hafi skilað áliti. „En möguleg notkun geldfisks í sjókvíaeldi er eitt af því sem hópurinn fjallar um. Grannt er fylgst með þeirri þróun sem á sér stað í ræktun á geldfiski og góð rök hníga að því að tengja leyfi til fiskeldis við geldlax í framtíðinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.