Framkvæmdarstjóri Signet Group, Terry Burman, segir að skartgripaverslanir fyrirtækisins í Bretlandi séu ekki til sölu, en yfirlýsingin kemur í kjölfar áhuga Baugs og Gerald Ratner á verslununum, segir í frétt Dow Jones.

Viðskiptablaðið hefur áður greint frá því að Baugur telji að breski hluti Signet gæti verið áhugavert félag í sameiningu við Goldsmiths verslanir Baugs. Engar viðræður hafa þó farið fram um kaup á verslununum.

Greint hefur verið frá því í fréttum að Ratner, fyrrum eigandi H Samuel skartgripaverslananna, hygðist bjóða 200 milljónir punda (26,3 milljarðar króna), en Ratner segir þá tölu hlægilega.