Það má segja að skattahækkun á neysluvörur og þjónustu hafi sömu áhrif á heimilin og reykingar á filterlausum Camel á einstakling. Eitrið rennur fram hindrunarlaust með tvöföldum neikvæðum áhrifum, á heilsu og fjárhag. Þetta er niðurstaða greinar sem Finnur Árnason ritar í Fréttablaðið í dag .

Hann segir að ávallt séu skiptar skoðanir um hvort skattheimta sé of eða van. Helsta verk stjórnvalda nú sé að koma atvinnulífinu af stað, með lægri hlutfallslegri skattheimtu, sem muni þegar upp er staðið skila hinu opinbera meiri tekjum. Skattheimta á atvinnulífið sé einnig orðin of mikil. „Skemmtileg staðfesting á því er einlæg og hreinskilin játning ráðherra um að heimahagarnir þurfi að vera undanskildir þeirri þungu skattbyrði sem hann telur sjálfsagt að leggja á aðra,“ segir Finnur.

Hann segir í greininni að nú í upphafi árs sé verðbólgan langt umfram það sem væntingar stóðu til. Þeir þættir sem hafi mest áhrif á hækkun vísitölunnar í upphafi árs eru bílar, bensín og olíur og tóbak. Auknar álögur á bíla og aukin skattheimta á tóbak um áramótin hafi þannig bein áhrif á útgjöld og skuldir heimilanna. „Þann 1. mars kom svokallaður sykurskattur til framkvæmda í formi vörugjalda. Þessi skattahækkun leiðir af sér árlegan reikning til heimilanna sem nemur einum milljarði króna. Afleiðing þessara skattbreytinga fyrir heimilin í landinu er tvöfaldur reikningur, þar sem þau fá annan reikning upp á rúman einn milljarð króna í formi hækkunar á verðtryggðum skuldum sínum,“ segir í greininni.