Þeir sem hafa haft sparifé sitt undir koddanum eða í bankahólfum á síðustu árum hafa ekki fengið neina ávöxtun fyrir það. Þvert á móti hafa þeir horft á fjármuni sína rýrna í verðbólgunni. Það er gríðarlega dýrt,“ segir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri fræðslu og viðskiptaþróunar hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka. Rætt er við hann í Morgunblaðinu í dag en þar segist hann telja skattahækkanir hafa latt fólk til sparnaðar.

Í blaðinu í gær kom fram að óverðtryggt sparifé fólks hafi brunnið upp. Björn segir hins vegar í samtali við blaðið í dag að raunávöxtun á dæmigerðum sparireikningi hefur verið jákvæð síðan í mars eftir að hafa verið neikvæð síðan í maí 2011. Hann segir að í dæminu sé gengið út frá því að féð hafi verið á reikningnum í ár fram að þessum mánuðum.

Að sögn Björns var raunávöxtun jákvæð frá febrúar 2009 og fram í maí 2011 en viðmiðun hans er óverðtryggði reikningurinn Heiðursmerki sem er í boði fyrir 60 ára og eldri. Telur Björn Berg þetta dæmigerðan reikning fyrir þennan aldurshóp sem eigi verulegan hluta sparifjár á innlánsreikningum.

Í blaðinu kemur fram að vextir á umræddum reikningi voru 4,06% síðustu 12 mánuði og verðbólga 3,3%. Raunávöxtun var því 0,76%.