Skattrannsóknarstjóri gætti ekki meðalhófs við rannsókn sína á notkun Íslendings á erlendu greiðslukorti sínu árið 2009. Þetta er niðurstaðan í áliti umboðsmanns Alþingis sem birt var í gær. Í niðurlagi að álitinu beinir Umboðsmaður þeim tilmælum til skattrannsóknarstjóra að „leitað verði leiða til að rétta hlut“ viðkomandi. Rannsókn á hendur honum hefur síðan verið látin niður falla.

Forsaga málsins er að árið 2009 hóf skattrannsóknarstjóri rannsókn á notkun um fjörutíu manns á erlendum greiðslukortum. Sum málin voru kærð til lögreglu, sem fór í kjölfarið í húsleit og aflaði gagna vegna rannsóknanna. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra vísaði málunum svo aftur til skattrannsóknarstjóra

Umboðsmaður Alþingis gerir athugasemd við tvennt. Annarsvegar að skattrannsóknarstjóri, sem á þeim tíma hafði ekki heimildir til að óska sjálfur eftir dómsúrskurði til húsleitar, skuli hafa kært málin til lögreglu í þeim eina tilgangi að láta ráðast í húsleit, þótt rannsókninni hafi ekki verið lokið.

Hins vegar gerir Umboðsmaður athugasemd við að sá sem kvartaði til Umboðsmann hafi ekki fengið tækifæri til að afhenda gögnin sjálfviljugur áður en ákveðið var að ráðast í húsleit. Í svörum skattrannsóknarstjóra við spurningum umboðsmanns bendir hann á að með því yrði viðkomandi gefið færi á að koma gögnunum undan.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segist, í samtali við Fréttablaðið, ekki átta sig fyllilega á því hvað embættið geti gert til að rétta hlut þess sem kvartaði. Spurð um hugsanlegar bætur segir hún að það væri tæpast embættisins að hafa frumkvæði að slíkum greiðslum, ef til þeirra kæmi.