Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, skaut skotum að Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, og ýmsum hagsmunasamtökum í erindi sínu á stafrænum fundi sem Félag atvinnurekenda (FA) stór fyrir í dag.

Fundurinn í dag bar yfirskriftina „Samkeppni eftir heimsfaraldur“ og batt Páll Gunnar endahnút á hann með lokaerindi dagsins, „Sókn er besta vörnin – verndarstefna skaðar atvinnulíf og almenning“. Þar fór hann um víðan völl á skömmum tíma. Yfirferðin hófst vestanhafs undir lok 19. aldar en þangað má rekja kveikjuna að setningu fyrstu samkeppnisreglnanna.

„Efling samkeppni er besta ráðið til að flýta fyrir efnahagsbata,“ sagði Páll Gunnar í erindi sínu og ítrekaði að virk samkeppni væri sérstaklega mikilvæg í efnahagsþrengingum. Of algengt sé, þegar kreppir að, að málin séu skoðuð frá of þröngu sjónarhorni og aðrar leiðir en virk samkeppni kunni að virka freistandi.

Hærra heyrist í verndarstefnusinnum

Minnti hann á að verndaraðgerðir væru í reynd ákveðið form ríkisstuðnings þar sem tekin væri ákvörðun um að færa vandamál stærri félaga að hluta til yfir á herðar smærri fyrirtækja og almennings. Það þýddi hærri verð, minni gæði og minni skilvirkni í stað þess að ráðast á rót vandans.

„Að mínu mati er talsverð ástæða til að hafa áhyggjur af því að hreyfing í átt til verndarstefnu sé að skjóta rótum í þessum aðstæðum,“ sagði Páll Gunnar og minntist í því samhengi á átján mánaða breytingu á fyrirkomulagi útboðs tollkvóta og frumvarps sem ætlað er að bjarga kjötafurðastöðvum.

„Talsmenn stærri fyrirtækja hafa einnig talað fyrir leiðum af þessu tagi eða eftir atvikum talað gegn samkeppni. Síðustu áramót var til að mynda haft eftir [Boga Nils Bogasyni] forstjóra Icelandair að ekki væri pláss á Íslandi fyrir fleiri en eitt flugfélag sem gerði út frá Keflavík. Félagið byggi við næga samkeppni utan frá. Að mínu mati er umræða sem þessi að skjóta sterkari rótum nú en í hruninu,“ sagði Páll Gunnar.

Hann sagði að vissulega hefðu stjórnvöld þurft að grípa til aðgerða til að bregðast við áfallinu og margir sjái nú verndaraðgerðir sem rökrétt framhald þeirra. Að hans mati er þar á ferð algerlega röng nálgun byggð á skammtímasjónarmiðum. Réttu viðbrögðin væru að sækja fram á við í stað þess að pakka í vörn.

„Við höfum séð það, meðal annars af fyrirhuguðum samrunum kjötafurðastöðva, að það er ýmislegt sem gefur til kynna að landbúnaðurinn þarfnist stuðnings. En stuðningurinn verður að vera liður í sóknaráæltun,“ segir Páll Gunnar. Draga verði úr hindrunum og hvetja fyrirtækin til bætts rekstrar og nýungasköpunar.

Mörg hagsmunasamtök hugsi til skamms tíma

Í slíkum verkefnum þurfi allir að leggja hönd á plóg, þingið, stjórnvöld, atvinnulífið og Samkeppniseftirlitið. Stjórnvöld hafi þar lykilhlutverki að gegna og að mörgu sé að hyggja. Við búum hins vegar svo vel að geta litið til annarra þjóða og árangurs þeirra á sviðum sem þyrfti að lappa upp á hér heima.

„Atvinnulífið þarf að hafa heildarhagsmuni í huga en ekki einangraða hagsmuni. Má þar nefna að ýmsar greinar hafa lýst yfir efasemdum um skýrslur og tillögur OECD þar sem þær kunni, að minnsta kosti til skemmri tíma, að skaða hagsmuni viðkomandi greina. Ég segi, hér við þennan hóp, að þar hefur Félag atvinnurekenda gegnt algeru lykilhlutverki í að tala fyrir breiðu heildarhagsmunum, aðgerðum sem opna markaði og skapa grósku sem virkni samkeppni fylgir,“ sagði Páll Gunnar.

„Þið þekki á eigin skinni að hindranir af hálfu stjórnvalda eða stærri fyrirtækja geta dregið úr ykkur kraftinn. Að mínu mati þurfa stjórnvöld að gera meira af því að hlusta á ykkar reynslu. Ég sé ekki önnur breið hagsmunasamtök taka þetta hlutverk að sér eins og sakir standa,“ sagði Páll Gunnar.

Að síðustu nefndi Páll Gunnar að Samkeppniseftirlitið hefði hug á því að ræða við FA um ýmis úrbótaatriði og sagði að eftirlitið gæti gert betur í því að nýta reynslu fyrirtækja af ýmsum úrbótaatriðum. Stofnunin hefði ekki haft tök á að sinna öllum kvörtunum og þurft að forgangsraða málum. Þótt allir væru ekki alltaf sammála væri málefnaleg gagnrýni af hinu góða. Báðir aðilar væru að sigla í sömu átt og vildu virka samkeppni. Stakk hann upp á virku samtali milli aðila um þetta á næstunni.