Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup rækjuvinnslunnar Ramma á Siglufirði á fiskvinnslu Sigurbjarnar í Grímsey, nú um einum og hálfum mánuði eftir að stofnuninni var tilkynnt um viðskiptin. Var um svokallaða styttri samrunatilkynningu að ræða samkvæmt 6. málsgrein 17. greinar samkeppnislaga sbr. viðauka II við reglur nr. 684/2008.

Meðal sjónarmiða sem komið var á framfæri við stofnunina eftir að hún óskaði eftir upplýsingum og sjónarmiðum frá aðilum sem kunna að verða fyrir áhrifum af samrunanum, voru áhyggjur af byggð í Grímsey. „Þau sjónarmið varða hins vegar ekki
mat á samkeppnislegum áhrifum samrunans, eins og mál þetta horfir við,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitisins.

Niðurstaða stofnunarinnar er að þó um sé að ræða samruna fyrirtækja sem starfi að nokkru leyti á sömu eða tengdum mörkuðum, annars vegar veiðar á fisk og hins vegar vinnsla og sala sjávarafurða, sem fari að hluta til fram utan Íslands, þá leiði samruninn ekki til að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða að samkeppni verði raskað að öðru leyti með umtalsverðum hætti.