*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 30. mars 2021 15:38

SKE svarar Halldóri

Samkeppniseftitlitið segist ekki hafa borist erindi frá Festi um breytingar á aðkomu óháðs kunnáttumanns.

Ritstjórn
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið hefur birt tilkynningu á vef sínum vegna forsíðufréttar Fréttblaðsins í morgun. Þar hafði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins (SA) kallað eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á SKE, m.a. vegna framferði stofnunarinnar í máli Festi um sölu verslunar Kjarvals á Hellu.

„Samkeppniseftirlitið hefur svarað því til að það sé ekki í verkahring þess að taka afstöðu til álitaefna sem risið geta vegna útgjalda tengdra óháðum kunnáttumanni. Við blasir að óeðlilegt er að setja fyrirtækið í þá stöðu að standa í deilum um reikninga frá kunnáttumanni sem hefur verið fært vald til að hafa veruleg áhrif á hag þess,“ var haft eftir Halldóri Benjamín í Fréttablaðinu. Jafnframt sagði hann að Festi hafi ítrekað gert efnislegar og rökstuddar athugasemdir við störf óháða kunnáttumannsins, Lúðvíks Bergvinssonar, og gangrýnt óhóflega þóknun hans. 

SKE segist hafa í tvígang aflað upplýsinga um hvort Festi hafi gert athugasemdir við kunnáttumann vegna kostnaðar sem fyrirtækið hafi borið af störfum hans. Hún hafi fengið staðfest að Festi gerði ekki athugasemdir við kunnáttumanninn, vegna tímaskýrslna eða vinnubragða, að undanskildu einu tilviki þar sem gerð var athugasemd við færslu einnar vinnustundar á reikningi sem átti að færast á annan lögaðila.

Í tilkynningunni kemur fram að Festi hafi, á starfstíma kunnáttumannsins, ekki beint öðrum formlegum erindum vegna starfa hans eða kostnaðar af þeim völdum. Bendir SKE á að ekki hafi borist erindi frá Festi um breytingar á aðkomu kunnáttumannsins að sátt félagsins, líkt og kom fram í kynningu félagsins fyrir aðalafund sem haldinn var í síðustu viku. 

Eftirlitið bendir einnig á að það hafi veitt leiðbeiningar fyrir fyrirtæki um kostnaðaraðhald vegna vinnu óháðra kunnáttumanna eða eftirlitsnefnda sem starfað hafa samkvæmt sáttum sem fyrirtæki hafa gert við eftirlitið.

Berist rökstuddar kvartanir vegna starfa kunnáttumanns, þar á meðal vegna kostnaðar, muni eftirlitið taka erindið til meðferðar og í framhaldinu taka afstöðu til þess. Felli Festi sig ekki við niðurstöðuna getur fyrirtækið borið hana undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála eða dómstóla. Með þessum hætti sé réttaröryggi fyrirtækisins tryggt til hins ítrasta og málum af þessu tagi skapaður lögbundinn farvegur.

Eftirlitið minnir á að Festi hafi eitt sinn áður borið ákvörðun tengt málinu fyrir áfrýjunarnefndina. Þar hafði félagið krafist ógildingar á ákvörðun SKE um að kunnáttumanninum væri heimilt að afla sér sérfræðiaðstoðar vegna mats á skilmálum og verðskrá Olíudreifingar ehf. eftir viðmiðum sáttarinnar. Áfrýjunarnefnd hafnaði kröfu Festi í málinu. Tekið er fram að Festi hafi gert tvo sjálfstæða verksamninga við sérfræðinga sem hafa verið kunnáttumanni til aðstoðar, annars vegar vegna mats á gjaldskrá Olíudreifingar og hins vegar vegna aðgengis að heildsölu N1 og verðskrá félagsins.

Að lokum vísar SKE í fyrri umfjöllun sína um málið sem Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku

Stikkorð: Samkeppniseftirlitið Festi SKE