Olíufélagið Skeljungur hagnaðist um 571 milljón króna á síðasta ári, sem er rúmlega tífalt hærri fjárhæð en ári fyrr þegar fyrirtækið hagnaðist um 55 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins.

Sala fyrirtækisins nam 42,8 milljörðum króna og jókst um tæplega 12 milljarða króna á milli ára. Kostnaðarverð seldra vara nam 36 milljörðum króna og jókst um tæplega 10 milljarða króna á milli ára. Rekstrarhagnaður Skeljungs nam tæplega 2 milljörðum króna og jókst um rúmlega 900 milljónir króna frá fyrra ári.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir Skeljungs 21,4 milljörðum króna í lok ársins en þær námu 16,4 milljörðum króna ári fyrr. Skuldir námu 13,3 milljörðum króna og jukust um 2,4 milljarða króna á milli ára. Eigið fé fyrirtækisins nam 8 milljörðum króna og jókst um 2,5 milljarða króna frá fyrra ári.

Stefnir, sem er dótturfélag Arion banka, á nær allt hlutafé í Skeljungi í gegnum eignarhald sitt á félögunum SÍA II og SF IV.