Tölvuleikjafyrirtækið Arctic Theory var stofnað síðasta sumar, og gaf út sinn fyrsta leik fyrir tæpri viku. Stofnendurnir fjórir, þeir Matthías Guðmundsson, Gísli Konráðsson, Jón Bjarnason og Snorri Sturluson, koma allir frá CCP, og hafa þegar fengið hátt í 200 milljón króna fjármögnun, en vinna nú að frekari fjármögnun til að standa undir framleiðslu og útgáfu næsta leiks, sem kemur út um mitt ár 2022.

Fyrsti leikur fyrirtækisins, Project Existence, kom út síðastliðin föstudag á tölvuleikjavettvangnum Steam. Hann er svokallaður sandkassaleikur, sem inniheldur ekki eiginlegan söguþráð, heldur gefur spilurum frjálsan tauminn.

Stofnendurnir leggja áherslu á að gera hlutina hratt, og komast þannig sem fyrst að því hvað gefist vel, og hvað megi betur fara. „Þetta er í raun ekki leikur, þetta er meira svona prufuumhverfi þar sem við getum prufað tækni og aðferðir“, segir Gísli, sköpunarstjóri félagsins,en leikurinn er ókeypis og öllum aðgengilegur.

Síðast en ekki síst nýtist Project Existence til að komast að því hvað spilurum finnst skemmtilegt og hvað ekki. „Það hjálpar lítið að leikurinn sé tæknilega fullkominn og allir verkferlar eins og best verður á kosið, ef lokaafurðin er svo ekki skemmtileg í spilun.“

Stefna að útgáfu aðgengilegs fjölspilunarleiks
Næsti leikur sem Arctic Theory stefnir á að gefa út verður hinsvegar öllu veglegri, ef svo má að orði komast, en hann mun heita Annex og er það sem félagið var stofnað til að gefa út.

Mikið verður lagt upp úr því að leikurinn verði aðgengilegur og þægilegur í spilun. Auk þess verður leitast við að hafa leikinn sveigjanlegan á þann hátt að ólíkir spilarar sem spila mismikið geti samt spilað saman, en meðal annars munu lengra komnir spilarar geta gefið eða lánað öðrum tæki til að geta spilað með sér.

„Við viljum ýta undir að allir geti spilað saman, hvort sem þeir spila á hálfs mánaðar fresti eða daglega.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Greint er frá gengi kauphallarfyrirtækjanna á fyrstu tíu mánuðum ársins.
  • Rætt er við aðalhagfræðing Íslandsbanka um gjaldeyrisinngrip Seðlabankans.
  • Fjármálastjórar íslenskra fyrirtækja eru bjartsýnni á framhaldið nú heldur en í vor
  • Fyrirhugaðar breytingar á upplýsingaskyldu verðbréfalaganna gætu haft letjandi áhrif á áhuga erlendra fjárfesta á að koma með fé hingað
  • Nýr framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, Tinna Traustadóttir, segir frá hvað sé líkt með nýja starfinu og uppbyggingarárunum hjá Actavis.
  • Viðskiptabankarnir þrír högnuðust um 11,3 milljarða samtals á þriðja ársfjórðungi. Afkoma jókst milli ára
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um Svanhildi Hólm og Viðskiptaráð
  • Óðinn skrifar um hugmyndaauðgi Ágústs Ólafs