Árgjald Icelandair American Express Classic kreditkortanna mun hækka um 30% frá og með næstu mánaðarmótum.  Samhliða þessum mun Kreditkort, sem er útgefandi kortanna, minnka fríðindi korthafa nokkuð.

Þetta kemur fram í bréfi sem Kreditkort hefur sent korthöfum en þar kemur fram að almenn verðlagsþróun undanfarið og síaukinn kostnaður geri það að verkum að nauðsynlegt reynist að hækka árgjald kortanna.

Þá kemur fram að samhliða þessu taki einnig gildi nokkrar aðrar „minniháttar efnisbreytingar“ á réttindum í fríðindakerfi kortanna. American Express kortin eru sem kunnugt er tengd Vildarklúbbi Icelandair en fyrir það eru greiddar 1.500 krónur aukalega á ári.

Kreditkort hafa frá árinu 2008 gefið út þrenns konar American Express hér á landi; American Express Classic og síðan American Express Premium og American Express Business, sem eru dýrari kort en þeim fylgja þó mun fleiri fríðindi og aukin punktasöfnun. Árgjald síðarnefndu kortanna mun ekki hækka.

Þær breytingar sem fjallað er um í bréfinu, og eru birtar á vef Kreditkorts, eru þó umtalsverðar. Fyrir það fyrsta munu handhafar Classic kortanna nú safna átta Vildarpunktum í stað 10 fyrir hverjar 1.000 krónur sem greiddar eru með kortinu. Þá munu handhafar Premium og Business kortanna safna 12 Vildarpunktum í stað 15 fyrir hverjar 1.000 krónur.

Handhafar American Express Classic hafa hinga til átt rétt á svokölluðum Félagamiða fari ársvelta kortsins yfir 2,6 milljónir króna. Handhafar Premium kortanna hafa hingað til þurft að velta 2,2 milljónum króna á kortinu á ári. Félagamiðinn felur í stuttu máli það í sér að þegar handhafi kortsins hefur áunnið sér rétt til miðans getur viðkomandi keypt sér Vildarmiða með Icelandair og fengið annan flugmiða með (og þar með boðið einhverjum með sér til útlanda). Fyrir báða miðana eru þó greiddir flugvallaskattar og eldsneytisgjald.

Sem fyrr segir hafa handhafar kortanna hingað til áunnið sér rétt til Félagamiða með 2,2 og 2,6 milljóna króna veltu á 12 mánaða tímabili. Með fyrrgreindum breytingum hækkar sú upphæð nú um eina milljóna króna, þannig að handhafar kortanna þurfa að velta 3,2 og 3,6 milljónum króna á sama tímabili. Þessar breytingar taka þó ekki gildi fyrr en í lok janúar nk.

Borga fyrir aðgang í betri stofur

Handhafar American Express Premium og Business kortanna hafa hingað til fengið ókeypis svokallaðan forgangsmiða (e. Priority Pass) á betri stofur flugvalla. Eftir breytingarnar næstu mánaðarmót munu þeir þó þurfa að greiða 50% fyrir aðgang í betri stofur á flugvelli erlendis, sem gerir um 12 evrur fyrir hverja heimsókn. Handhafar kortanna fá þó áfram ókeypis aðgang að Saga Lounge Icelandir í Leifsstöð séu þeir að fljúga með félaginu.

Handhafar American Express safna þó áfram fleiri punktum á sínum kortum samanborið við gullkort stærstu viðskiptabankanna en handhafar þeirra safna í flestum tilvikum fimm Vildarpunktum fyrir hverjar 1.000 krónur séu kortin tengd Vildarklúbb Icelandair. Handhafar Platinum korta safna þó fleiri punktum.

Rétt er að taka fram að handhafar American Express kortanna fá punkta af allri veltu kortanna, hvort sem kortið er notað innanlands eða utanlands. Til samanburðar fá handhafar Visa korta eingöngu punkta ef söluaðili þar sem kortið er notað er með samning við Valitor og að sama skapi ávinna handhafar MasterCard korta sér eing0ngu stig upp í ferðaávísun ef söluaðilinn er með samning við Borgun. Þá fást engir punktar eða fríðindi fyrir notkun Visa og MasterCard korta erlendis.

Viktor ólason  framkvæmdarstjóri Kreditkorta, Debra Davies framkvæmdastjóri hjá Amerikan Express í Evrópu, Inga Birna Ragnarsdóttir forstöðumaður Vildarklúbbs Icelandair og Sigfríð Eik Ragnarsdóttir Markaðsstjóri Amerikna Express á íslandi.
Viktor ólason framkvæmdarstjóri Kreditkorta, Debra Davies framkvæmdastjóri hjá Amerikan Express í Evrópu, Inga Birna Ragnarsdóttir forstöðumaður Vildarklúbbs Icelandair og Sigfríð Eik Ragnarsdóttir Markaðsstjóri Amerikna Express á íslandi.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Viktor Ólason, þá framkvæmdarstjóri Kreditkorta, Debra Davies framkvæmdastjóri hjá Amerikan Express í Evrópu, Inga Birna Ragnarsdóttir, þá forstöðumaður Vildarklúbbs Icelandair og Sigfríð Eik Ragnarsdóttir Markaðsstjóri Amerikna Express á íslandi, þegar kortin voru fyrst kynnt hér á landi.