Lággjaldaflugfélagið Ryanair skilaði hagnaði á síðasta rekstrarári, sem lauk í mars, og er það í fyrsta sinn sem það skilar hagnaði frá því að Covid-19 heimsfaraldurinn skall á. Hagnaður félagsins nam 1,43 milljörðum evra. BBCgreinir frá.

Munaði þar mest um að farþegafjöldi jókst og flugfargjöld hækkuðu. Meðalflugfargjöld námu 41 evru á síðasta rekstrarári, sem er 50% hærra verð en á sama tímabili árið áður. Flugfélagið varar þó við því að hækkandi eldsneytiskostnaður geti litað afkomu yfirstandandi rekstrarárs.

Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, segir flugfargjöld nú vera umtalsvert hærri en í fyrra þegar innrás Rússa í Úkraínu dró úr eftirspurn eftir flugferðum.