Von er á 113 heimsóknum skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur í sumar og um 100 til Akureyrar. Talið er að þessar heimsóknir skili um sex milljörðum króna í þjóðarbúið, bæði beint og óbeint. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag.

Þetta eru niðurstöður könnunar sem Hafnasamband Íslands og samtökin Cruise Iceland létu gera meðal farþega ári 2013 og 2014. Síðan þá hefur bæði skipum og farþegum fjölgað svo áætla má að tekjurnar séu jafnvel enn meiri í dag.

Samkvæmt könnuninni eyddu farþegarnir um 5,3 milljörðum króna með viðkomu sinni hér á landi. Inni í því eru m.a. flugferðir til og frá landinu. Um 140 milljónir komu af verslun skipverja, 433 milljónir fóru í hafnargjöld og 150 milljónir í skattgreiðslur til ríkisins.