„Ég hef sagt allt sem ég get sagt. Að kröfu viðsemjanda þá get ég ekki sagt neitt um vextina. Ég vildi gjarnan segja allt enda lít ég svo á að þetta sé okkur svo hagstæður samningur að það væru hagsmunir okkar að segja sem mest frá honum,“ segir Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar greindi frá því í morgun að samningar hafi náðst um endurfjármögnun um þrettán milljarða króna láns gagnvart Depfa-banka í Þýskalandi. Lán bæjarins hjá bankanum upp á fjóra milljarða króna féll á gjalddaga í apríl. Lánið er í þremur hlutinn og var sá hluti lánsins sem féll á gjalddaga tekinn árið 2008. Þetta eru öll erlend lán Hafnarfjarðarbæjar. Aðrar skuldbindingar eru í íslenskum krónum gagnvart innlendum lánardrottnum. Endurfjármögnunin felur í sér að lánin eru framlengd til fjögurra ára og eru vextir greiddir af þeim á þriggja mánaða fresti.

Tryggingar bæjarins fyrir greiðslum eru meðal annars óseldar lóðir.

Viðræður hafa staðið lengi yfir og segir Guðmundur að samningar hafi verið í farvatninu þegar Depfa-banki fór á hliðina. Skilanefnd á vegum þýska ríkisins tók hann yfir og hefur bæjarsjóður staðið í samningaviðræðum við hana.

Depfa-banki og skilanefnd þrotabús bankans á ríkra hagsmuna að gæta gagnvart fleirum hér á landi en Hafnarfjarðarbæ og hafa fulltrúa skilanefndarinnar fundað með bæjarstjórum víða um land.

Guðmundur telur það skýra að skilanefnd Depfa-banka vilji ekki gefa upp vaxtakjörin. Sjálfur beiti hann fulltrúa bankans stöðugum þrýstingi til að fá sem mest birt. „Það sem við höfum þó birt er tilkomið vegna þrýstings frá okkur,“ segir hann. Heildarendurfjármögnun á erlendum lánum bæjarins. Engar nýjar skuldbindingar falla á bæjarsjóð, að sögn Guðmundar. Öll erlend lán Hafnarfjarðarbæjar voru hjá Depfa-banka.

Hann segir stöðu bæjarsjóðs góða og geti hann staðið undir afborgunum lánanna. Gert sé ráð fyrir þeim í fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Hafnarfjarða sem lögð var fram til fyrri umræðu í gær.