Það er líklega rétt svona í upphafi að færa augun af hinum undirliggjandi tölum og skoða einfaldlega heildarniðurstöðuna af uppgjöri Kaupþings.

Og ef litið er algerlega raunsætt á málin er hún vissulega góð: á einum erfiðasta fjórðungi í lífi margra banka og fjármálafyrirtækja víða um heim hagnast Kaupþing um um tæpa 19 milljarða og skilar arðsemi eigin fjár upp á tæp 24% sem er vel umfram markmið bankans.

Það er auðvitað gott og ekki þarf að efast um að fjölmargir bankar teldu sig góða að geta sýnt hluthöfum sínum fram á slíka niðurstöðu. Það var því ekki of djúpt í árinni tekið hjá Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, þegar hann sagði að uppgjörið væri vel viðunandui í ljósi erfiðra aðstæðna.

En að því sögðu er líklega rétt að færa sig nær jörðunni og benda á að stór hluti teknanna er til kominn vegna gengisáhrifa og engar líkur á að viðlíka tækjufærsla verði á þeim fjórðungi sem hafinn er og var á þeim fyrsta. Á móti vegur hins vegar að ólíklegt er að bankinn muni þurfa að færa til jafnmikið gengistap vegna hlutabréfa og raunin var á fyrst fjórðungi.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .