*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 26. september 2020 19:01

Skilvirkni og tækni í fyrirrúmi

„Breytt rekstrarumhverfi fyrirtækja kallar á meiri skilvirkni í rekstri,“ segir framkvæmastjóri Intellecta en félagið á 20 ára afmæli í ár.

Alexander Giess
Þórður S. Óskarsson er framkvæmdastjóri Intellecta.
Gígja Einarsdóttir

Ráðgjafarfyrirtækið Intellecta hóf starfsemi árið 2000 og heldur því upp á 20 ára afmæli á þessu ári. Við stofnun félagsins var megináherslan á mannauðsmál. Eftir því sem fyrirtækinu óx fiskur um hrygg, þá bættist við ráðgjöf á sviði ráðninga, stjórnendaleitar, skipulagsmála, rekstrarúttekta, ferlagreininga og gæðastjórnunar. Á árinu 2002 voru ráðgjafar félagsins fimm og fyrirtækið orðið alhliða í rekstrar- og stjórnunarráðgjöf en nú eru ráðgjafar Intellecta þrettán.

Í dag leggur félagið áherslu á að sinna stærri fyrirtækjum á almennum markaði sem og stærri opinberum fyrirtækjum og stofnunum. Auk þeirra sinnir Intellecta þjónustu fyrir nýsköpunarfyrirtæki, alþjóðleg fyrirtæki sem eru að hefja starfsemi á Íslandi, sveitarfélögin og stjórnsýslu sem eru að breyta starfsháttum sínum.

Samhliða ráðgjafarþjónustu sér Intellecta meðal annars um kannanir; kjarakannanir stjórnenda og sérfræðinga, kannanir á sviði markaðsmála og mælinga á starfsánægju í fyrirtækjum.

Starfsemin tekið umfangsmiklum breytingum

„Breytt rekstrarumhverfi fyrirtækja kallar á meiri skilvirkni í rekstri. Við erum því að leggja meiri áherslu á ráðgjöf sem miðar að því að hjálpa fyrirtækjum að ná meiri skilvirkni með því að endurskipuleggja rekstrarmódelin sín og nýta rétta tækni og réttu tólin í þeim tilgangi,“ segir Þórður S. Óskarsson, framkvæmdastjóri Intellecta. Þar bætir Þórður við að sjálfvirknivæðing, gervigreind og skýjavæðing komi til með að spila stórt hlutverk í þeirri þróun.

Segir hann að ráðgjöf félagsins í dag snúi að miklu leyti að stefnumótun þar sem félagið aðstoðar við endurgerð verkferla og tryggir betri nýtingu á tækni. Samhliða þeirri þróun snýr fræðsla og ráðgjöf félagsins nú helst að stafrænni umbreytingu og stafrænni fræðslu og má því segja að félagið aðstoði aðra við að fullnýta þá tækni sem er til staðar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.