*

laugardagur, 23. janúar 2021
Erlent 1. desember 2020 19:47

Skilyrða fjölbreytileika stjórna

Samþykki SEC tillögu Nasdaq þurfa skráð fyrirtæki að hafa bæði konu og einstakling úr minnihlutahópi í stjórn innan árs.

Ritstjórn
Nasdaq vill auka sýnileika kvenna og minnihlutahópa í forystu skráðra fyrirtækja.
Aðsend mynd

Nasdaq stefnir á að skylda skráð fyrirtæki til að hafa að lágmarki eina konu og einn einstakling úr minnihlutahópi, vegna kynþáttar, kynhneigðar eða kynvitundar, í stjórn.

Samkvæmt frétt WSJ hefur Nasdaq lagt fram tillögu þess efnis fyrir bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC), en fyrirtæki sem ekki uppfylla skilyrðið koma til með að þurfa að veita á því skýringar.

Erlend fyrirtæki sem og smærri fyrirtæki geta uppfyllt þessar kröfur, verði þær að veruleika, með því að hafa tvær konur í stjórn. Samþykki SEC tillöguna, koma skráð fyrirtæki til með að þurfa að gefa upp tölfræði um fjölbreytileika stjórnar innan árs. Frestur til að uppfylla skilyrðin verður háður því hvers eðlis skráning hvers fyrirtækis er.

Samkvæmt Nasdaq hafa þrjú af hverjum fjórum skráðum fyrirtækjum undanfarna sex mánuði ekki verið með stjórnir sem myndu uppfylla skilyrðið. Forstjóri Nasdaq, Adena Friedman, segir skilyrðið auka á sýnileika fjölbreytni í forystu fyrirtækja.