Már Guðmundsson seðlabankastjóri hélt ræðu á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York í gær. Þar fjallaði Már um íslenska hagkerfið tveimur árum eftir hrun.

Meðal þess sem Már fjallaði um voru gjaldeyrishöftin og sagði hann að þrjú skilyrði þurfi að uppfylla áður en þau verði afnumin. Í fyrsta lagi þurfi að vera þjóðhagslegur stöðugleiki og að skuldir ríkisins verði sjálfbærar. Í öðru lagi þurfi gjaldeyrisforði að vera nægur og í því þriðja þarf heilbrigt fjármálakerfi.

Eftir þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda er fyrstu tveimur skilyrðunum fullnægt að mati Más. Hann sagði útlit fyrir að þriðja skilyrðinu verði fullnægt í lok ársins.