Sjálfstæðismenn í Ísafjarðarbæ eru óánægðir með ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisáðherra um að sýslumaðurinn á Vestfjörðum verði staðsettur á Patreksfirði. Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í bænum sendi frá sér ályktun þess efnis í dag.

Fulltrúaráðið segist telja eðlilegast að aðsetur embættis sýslumanns verði í Ísafjarðarbæ þar sem rúmlega 70% af íbúum á Vestfjörðum búi í eða við sveitarfélagið. Þessi aðgerð sé líkleg til að veikja embættið.

Bæjarráð Vesturbyggðar fagnar hins vegar ákvörðun innanríkisráðherra í ályktun sem einnig var sent út í dag. Bæjarráðið segir að stigið sé stórt og markandi skref í átt til eflingar svæðisins í heild með ákvörðun ráðherrans. Fjöldi opinberra starfa hafi horfið úr sveitarfélaginu og ekkert hafi komið í staðinn.