Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði nýverið kröfu Reykvískra lögmanna slf., lögmannsstofu Sveins Andra Sveinssonar, um að félagið DataCell ehf. (DC) yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Niðurstaða dómsins hefur verið kærð til Landsréttar.

Fjallað var um málið á síðum Viðskiptablaðsins þegar munnlegur málflutningur um kröfuna átti sér stað en þar kom fram að Sveinn Andri taldi sig eiga inni 10% af dæmdum bótum til félagsins í WikiLeaks-málinu svokallaða. Þar voru DC dæmdar 60 milljónir króna en Sunshine Press Productions ehf. rúmlega 1,1 milljarður.

Krafa Sveins Andra byggði á því að hann hefði skorað á DC að greiða kröfuna og ef ekki yrði orðið við því yrði farið fram á skipti. DC svaraði með því að félagið væri borgunarmaður þrátt fyrir 191 milljónar neikvætt eigið fé. Skiptum var hafnað í héraði á þeim grunni að tilvist kröfunnar væri óljós.