Skiptum á þrotabúi 12.12.2017, sem áður hét Kostur ehf., lauk nýverið eftir rúmlega þriggja ára skiptameðferð. Þetta kemur fram í auglýsingu frá Lögbirtingablaðinu .

Engar eignir fundust í búi félagsins en lýstar kröfur í félagið námu um 254 milljónum króna auk áfallna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag skiptanna. Því fékkst ekkert upp í lýstar kröfur.

Jón Gerald Sullenberger var stærsti hluthafi Kosts áður en að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta þann 15. febrúar 2018. Nafnið 12.12.2017 er vísun í dagsetninguna þegar að Kostur lokaði verslun sinni við Dalsbraut í Kópavogi.

Í byrjun árs 2020 var Jóni Gerald og félagi hans, Nordica Inc., gert að greiða þrotabúi Kosts 12 milljónir auk dráttarvaxta . Nordica Inc. var stærsti birgir Kosts og keypti Kostur vörur í Bandaríkjunum í gegnum félagið. Kostur greiddi samanlagt um 12 milljónir króna til félagsins í janúar 2018, um mánuði áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Var talið að Jón Gerald hafi vitað að krafa um gjaldþrot væri komin fram þegar að greiðslurnar voru inntar af hendi.