Skiptum er lokið á félaginu Framtíðarleiga ehf.  en félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 18. mars sl. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu í dag. Alls námu lýstar kröfur rétt rúmlega 223 milljónir króna, en skiptum var lokið án þess að greiðsla fengist í kröfurnar.

Framtíðarleiga ehf. var dótturfélag fjárfestingabankans VBS en samkvæmt kröfuhafafundi frá árinu 2011 var félagið ennþá í fasteignarekstri, en starfsemi þess var þá sögð verulega löskuð.

Auk félagsins Framtíðarleiga ehf. voru einnig dótturfélögin Stórás ehf. og Víðir og synir ehf. sögð vera í sama ástandi. Skiptum var lokið á Stórás ehf. í byrjun janúar 2014 en lýstar kröfur námu rúmlega 4 milljörðum króna en ríflega 45 milljónir króna fengust upp í lýstar kröfur. Víðir og synir ehf. hefur ekki verið lýst gjaldþrota.