*

föstudagur, 23. ágúst 2019
Innlent 3. september 2018 10:10

Skipulagsbreytingar hjá Kynnisferðum

Kjarnastarfsemi Kynnisferða verður skipt í tvær einingar, og flotasvið stofnað utan um rekstur rútu- og strætóflotans.

Ritstjórn
Engilbert, Halldóra og Sigurður taka öll við nýjum sviðum.
Aðsend mynd

Breytingar hafa verið gerðar á skipuriti rútufyrirtækisins Kynnisferða, sem snúa einkum að kjarnastarfsemi félagsins: rekstri ferðaskrifstofu og hópbifreiða, sem stendur undir 70% af veltu félagsins, sem auk þess rekur strætisvagna og bílaleigu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Kjarnastarfseminni verður skipt í tvær einingar. Annarsvegar sölu- og markaðssvið, þar sem aukin áhersla verður lögð á að sækja tekjur, þróa vörur og efla markaðssetningu. Hinsvegar verða þjónusta við viðskiptavini og rekstur ferða sameinuð í svið sem ber einfaldlega heitið „þjónusta og rekstur ferða“. Þá tekur nýstofnað flotasvið við öllum rekstri rútu- og strætóflota, og bætist við þrjú núverandi stoðsvið félagsins.

Tilgangur breytinganna er sá að ná meiri samfellu í þjónustu við viðskitpavini og efla hana, ásamt því að auka tekjur og stuðla að hagkvæmni í rekstri bílaflota, segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.

Engilbert Hafsteinsson verður rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé rekstrarstjóri þjónustu og reksturs ferða, og Sigurður Steindórsson rekstrarstjóri flotasviðs.

Halldóra hefur starfað hjá félaginu sem rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs frá mars 2017, og starfaði áður sem útibússtjóri Íslandsbanka og sölu- og markaðsstjóri hjá Opnum Kerfum. Sigurður hefur starfað hjá SBK frá árinu 1992, en síðasta haust rann rekstur SBK – sem Kynnisferðir keyptu árið 2006 – saman við Kynnisferðir. Engilbert starfaði áður hjá WOW Air, en hóf störf hjá félaginu í upphafi mánaðar.

„Við bjóðum Engilbert velkominn til okkar. Hann hefur mikla reynslu af sölu og markaðssmálum á erlendum vettvangi með áherslu á stafrænar lausnir og munu kraftar hans nýtast okkur vel í þeirri vegferð okkar. Við erum mjög ánægð með þetta öfluga teymi stjórnenda. Við höfum mikinn og góðan mannauð innan fyrirtækisins. Við erum sannfærð um að með þessu nýja skipuriti munum við efla þetta sterka fyrirtækið enn frekar,“ segir Björn.

Stikkorð: Kynnisferðir