Í Viðskiptablaðinu í dag segir að Becromal SPA, sem hyggst reisa aflþynnuverksmiðju í samstarfi við Strokk hf. á Norðurlandi, sé mögulega í viðræðum við Landsvirkjun um orkuöflun fyrir frekari verkefni á Suðurlandi.

Aldo C. Fasan, forstjóri Becromal SPA, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að lítið væri hægt að upplýsa um málið að svo stöddu, en samstarfið við Landsvirkjun hefði verið heilladrjúgt fram að þessu. "Við munum án efa skoða frekari fjárfestingu á Íslandi þar sem samstarf við íslenska aðila hefur verið með besta móti," sagði Fasan. Landsvirkjun sendi frá sér tilkynningu í síðustu viku þess efnis að ekki yrði gengið til samningaviðræðna við fyrirtæki sem hygðu á byggingu nýrra álvera á Suður- og Vesturlandi. Virkjun Þjórsár er engu að síður enn fyrirhuguð og því hafa opnast möguleikar fyrir annan iðnað.

Aflþynnuverksmiðjan, sem mun rísa á Krossanesi, mun skapa 90 störf sem krefjast hátækniþekkingar. Iðnaðurinn er afar orkufrekur en sleppir engum gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Verklok eru fyrirhuguð næsta vor.