Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra skrifaði í dag undir samning við byggingarfyrirtækið LNS Saga ehf. um byggingu sjúkrahótels, en fyrsta skóflustungan var tekin við sama tilefni.

LNS Saga ehf. var lægstbjóðandi í verkið í útboði sem fór fram í september en sjúkrahótelið er fyrstu áfangi í uppbygginu nýs Landsspítala við Hringbraut. Sjúkrahótelið ris við norðurhluta lóðar spítalans og verður tekið í notkun árið 2017. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og mun aðstaða sjúklinga og aðstandenda batna mikið.

Kristján Þór sagði við tilefnið:

„Þetta er ánægjulegur dagur sem markar ákveðin tímamót. Nýtt sjúkrahótel mun bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra strax og það er risið. Mestu skiptir þó sú staðreynd að með þessum fyrsta áfanga eru verklegar framkvæmdir við uppbyggingu þjóðarsjúkrahúss hafnar.“

Framkvæmdir munu hefjast fljótlega, en í fyrstu verða gerð bráðabirgðabílastæði á svæðinu sunnan við aðalbygginu Landsspítala sem munu koma í stað annarra stæða sem verður lokað tímabundið þegar framkvæmdir hefjast.

Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó), 14.780 rúmmetrar (brúttó) með kjallara og tengigöngum. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang. Samningsfjárhæð er samkvæmt tilboði verktaka og samkvæmt ákvæðum útboðsgagna, kr. 1.833.863.753.