Samkvæmt nýrri skýrslu frá Hagrannsóknarstofnun Bretlands (Centre for Economics and Business Research) er kostnaður við að hafa breskt barn í grunnskóla þar í landi kominn upp í 1.077 pund (rúmlega 167.000 íslenskar krónur) á ári.

Hækkun matar- og olíuverðs veldur þessari kostnaðaraukningu sem breskar fjölskyldur verða fyrir, en kostnaðurinn hefur aukist um 2,3% síðastliðið ár.

Breskar fjölskyldur eyða nú 10,5 milljörðum punda á ári í vörur sem nauðsynlegar eru fyrir skólagöngu barna.

Stærsti kostnaðarliðurinn er máltíðir í skólanum, sem kosta 388 pund á barn að meðaltali á ári. Skólabúningar kosta 266 pund á ári og íþróttaföt 207 pund.

Skólaferðalög kosta 79 pund á ári og ferðir í skólann 66 pund.

Umsjónarmaður skýrslunnar segir í viðtali við BBC að þessar tölur gefi smásölum og öðrum mikilvæga innsýn í líf breskra fjölskylda og á það álag sem fjárhagur þeirra þarf að þola við núverandi efnahagsástand. Fjölskyldur hafi ekkert val um hvort þær senda börnin sín í skóla og því geti þær ekki komið sér undan þessari kostnaðaraukningu.