Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, segir að erlendir ferðamenn ætlist til þess að bílaleigubílar séu nýlegir og að þeir séu í lagi.

„Því miður, fljótlega upp úr hruni, þá var staðan skelfileg á þessum markaði. Það var allt of mikið af bílaleigum sem voru stofnaðar sem voru að bjóða eldri bíla og bíla sem voru ekki í lagi. Það var hrein skömm fyrir íslenska ferðaþjónustu. Sem betur fer hefur þessum fyrirtækjum fækkað og staðan í dag er sú að það er verið að bjóða miklu meira af nýjum eða nýlegum bílum. Sem er bara mjög gott.

Svo er hitt líka, að fyrir ferðamanninn – og svo sem Íslendinga líka marga hverja – eru íslenskir vegir öðruvísi en gengur og gerist víða í Evrópu. Þeir eru þrengri, þetta eru malarvegir, það er malbik og svo kemur möl, það eru einbreiðar brýr, hálka, skyggni slæmt og svo framvegis. Margir okkar viðskiptavina, sérstaklega þessir erlendu, eru ekkert vanir þessum aðstæðum. Þá skiptir miklu máli að þeir séu á öruggum bílum. Við leggjum mikla áherslu á að allir okkar bílar séu á nagladekkjum yfir veturinn. Það teljum við vera algjört skilyrði og mikið öryggisatriði.“

Steingrímur segir að vegna þess hversu stór hluti af heildarbílaflota Íslands séu bílaleigubílar séu bílaleigur í raun að endurnýja bílaflota landsmanna um leið og þær endurnýja sinn bílaflota. Það sé mjög gott umhverfislega séð, enda losa nýir bílar minni koltvísýring. „Reyndar er það útbreiddur misskilningur að bílaflotinn sé að brenna miklu. Það er alls ekki svo, en það er gott að geta gert vel samt.“

Hvað finnst þér um stefnu og aðgerðir stjórnvalda í vegamálum?

„Maður skilur alveg stöðuna undanfarin ár að því leyti til að fjárhagsleg staða ríkisins hefur nú ekki verið beysin. Auðvitað urðu menn að halda að sérhöndum og draga saman seglin. Það kostar að vera fátækur, en með þessum gríðarlega fjölda ferðamanna sem hefur komið til landsins, þá skiptir öllu máli að þeim sé búin góð aðstaða.

Erlendir ferðamenn eru að leggja gríðarlega mikið til þjóðarbúsins. Okkur reiknast til að viðskiptavinir okkar, bílaleignanna allra séu að leggja inn í ríkissjóð, bara í gegnum olíugjald, bensíngjald og virðisaukaskatt af eldsneyti upp undir fimm milljarða á hverju ári.“

Ítarlegt viðtal við Steingrím er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .