5,5% Íslendinga bjuggu á heimilum sem skorti efnisleg gæði á síðasta ári, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Hlutfallið mældist 6,6% árið 2013 og hafði þá verið nokkuð stöðugt frá 2010. Ennþá eru tvöfalt fleiri sem búa á heimilum sem skorti efnisleg gæði heldur en þegar hlutfallið mældist minnst í uppsveiflunni fyrir hrun.

Konur eru líklegri til að skorta efnisleg gæði heldur en karlar, en kynjabilið dregst þó verulega saman milli ára. Í fjórum Evrópulöndum er lægra hlutfall einstaklinga sem skortir efnisleg gæði heldur en á Íslandi. Þetta eru Lúxemborg, Noregur og Svíþjóð, auk Sviss þar sem hlutfallið mælist minnst meðal Evrópuríkja.

Þegar staðan er skoðuð eftir stöðu fólks á vinnumarkaði sést að öryrkjar eru sá hópur sem í mestum mæli skortir efnisleg gæði. 23% öryrkja og langveikra skorti efnisleg gæði á síðasta ári og er það hæsta hlutfall sem mælst hefur síðan lífskjararannsóknin hófst árið 2004. Skortur á efnislegum gæðum dregst hins vegar verulega saman meðal atvinnulausra, eða úr 21,1% í 12,5%.

Þess má geta að í Grikklandi skorti 37,3% einstaklinga efnisleg gæði á síðasta ári. Hlutfallið hefur farið hratt versnandi eftir að skuldakreppa landsins hófst í kringum 2009.