Sérðu fyrir þér að sleppa höndunum af því að geta stýrt félaginu algjörlega eftir þínu höfði, til dæmis með skráningu félagsins á markað eða aðkomu fjárfesta?

„Það sem skiptir öllu máli í þessu er að ég vil fá fjárfesta sem skilja okkar sýn og hvernig við höfum náð þessum árangri. Það er lykilatriði. Það sama gildir ef við skráum félagið á markað. Það sem skiptir öllu máli er að við séum með skýra stefnu og erum að framkvæma samkvæmt henni og vonandi ná þannig áframhaldandi árangri.

Flugrekstur er undir mjög ströngu eftirliti yfirvalda og við þurfum að uppfylla margvísleg skilyrði hvað varðar öryggi og sjálfstæði flugrekstrarsviðs þannig að ég hef sem betur fer verið með frábært fólk með mér frá fyrsta degi sem hefur borið ábyrgð á þeim hluta WOW air og gert það mjög vel. Einnig vorum við nýlega að ráða Ragnhildi Geirsdóttir sem aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra rekstrar. Þannig gefst mér meiri tími til að skoða frekari vaxtartækifæri og uppbyggingu erlendis. Þetta er hluti af því hvernig við viljum staðsetja okkur og mögulega hefja flug algjörlega óháð Íslandi.

Fyrir langtímasýn okkar og aðgang að traustu fjármagni finnst mér samstarf við erlenda aðila miklu áhugaverðara, sér í lagi þegar það eru engin fjármagnshöft.  Íslenskir fjárfestar geta þá keypt í félaginu óháð því hvar við erum skráð þegar fram líða stundir. Stefnan er að skrá félagið á markað erlendis árið 2019.

Eflaust munu einhverjir fjárfestar líta á mig sem áhættuþátt og vilja þá ekki fjárfesta í WOW air. Þeim er þá velkomið að fjárfesta áfram í Icelandair eða einhverju öðru,“ segir Skúli Mogensen.

Í viðtalinu, sem birtist í Áramótum, ræddi Skúli meðal annars um framtíð Keflavíkurflugvallar, þörfina á að stýra fjölda ferðamanna inn í landið, aðdragandann að stofnun WOW air og margt fleira.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .