Skráð eignasafn Exista hefur lækkað verulega síðan í lok þriðja fjórðungs á síðasta ári eða um 141 milljarð króna, samkvæmt útreikningum frá greiningardeild Glitnis. Frá áramótum talið hefur eignasafnið rýrnað um 61 milljarð króna.

"Eigið fé Exista hefur lækkað umtalsvert í þessum hreyfingum og nemur nú um 15% (mark-to-market). P/B stendur nú í 1,78 (miðað við að eignir séu færðar á föstu gjaldmiðlagengi í lok 3F07) en er 1,5 miðað við gjaldmiðlagengi dagsins í dag. Þessi þróun hefur átt sér stað síðan í upphafi Q407, og hefur þannig ekki skapast á einni nóttu," segir greiningardeild Glitnis.   Hún segir að fyrir liggur að stærstu eignir Exista, það er Kaupþing og Sampo, eru kjarnaeignir í eignasafni félagsins. "Nú er staðan hins vegar orðin þannig, þ.e. lágt eiginfjárhlutfall, að verulega hefur þrengt að félaginu og ljóst er að félagið þolir ekki miklar viðbótar lækkanir þessara skráðu eigna."

Mat SEB Enskilda ekki rétt

Greiningardeildin telur að mat SEB Enskilda sem birt var í gær ekki byggja að öllu leiti á réttum forsendum. Það að félagið dragi frá hlutdeild Exista í hagnaði Sampo vegna bankasölunnar og reikni svo niðurfærslu á þessari eign (mark-to-market) er tvítalning. "Einnig reikna þeir inn lækkun á skráðu eignasafni síðan eignirnar náðu sínu hæsta gildi (en það var á 2F07) og miða svo við stöðu eiginfjár í lok 3F07. Þetta veldur því að þeir of áætla tap af þessum eignum," segir hún.