Skráningarpartíið er ekki búið í Kauphöllinni samkvæmt heimildarmönnum Viðskiptablaðsins á fjármálamarkaði þrátt fyrir þunga stemningu á mörkuðum síðustu misseri og á fyrsta viðskiptadegi Nova á þriðjudaginn.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, tekur í sama streng. Sú alda skráninga og útboða sem riðið hafi yfir sýni gjörbreytt landslag á hlutabréfamarkaði og með því fjármögnunarumhverfi fyrirtækja.

Líta megi á þá staðreynd að útboð þessa árs hafi yfirhöfuð farið fram og að þátttakan hafi þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður verið mjög góð á flesta mælikvarða sem eina skýrustu birtingarmynd þess hversu mikið markaðurinn hefur styrkst.

Markaðurinn gjörbreyst á nokkrum árum

„Mér finnst það afskaplega jákvætt fyrir íslenskan hlutabréfamarkað að þarna séu um fimm þúsund almennir fjárfestar að kaupa fyrir fjóra milljarða króna.“

Hann ber viðbrögð markaðarins við áfallinu sem heimsfaraldurinn var saman við áhrif stríðsins og annarra slæmra frétta á fyrri hluta þessa árs.

„Það er áhugavert að skoða hvað markaðurinn var mikið grynnri og átti erfiðara með að taka á ástandinu þá heldur en Úkraínustríðinu og öllu sem því fylgdi nú í vor. Hann er orðinn allt annar í dag með alla þessa einstaklinga, og reyndar fjölbreyttari flóru fjárfesta, og með því hefur getan til að takast á við skarpar og óvæntar forsendubreytingar gjörbreyst á þessum tveimur árum.“

Erfið frumraun Nova á aðalmarkaði hafi ekki sett teljandi strik í reikninginn hvað horfur á frekari skráningum varðar.

„Auðvitað er alltaf jákvæðara þegar bréfin fara upp en niður á fyrsta degi. Ég hef hins vegar ekki stórkostlegar áhyggjur. Ég held að stemningin fyrir útboðum muni eftir sem áður velta að mestu leyti á efnahagsástandinu á hverjum tíma og yfirveguðu mati á því hvort verið sé að bjóða vel eða illa. Fyrst og fremst vonar maður að almenningur – bæði með hækkun síðasta árs og lækkun á þessu – reyni að sjá heildarmyndina. Eins mikil klisja og það er þá eru hlutabréfafjárfestingar auðvitað langhlaup.“

Láta ekki lækkanir á sig fá

Viðskiptablaðið sló á þráðinn til nokkurra aðila sem eru starfandi á markaðnum og fékk að heyra viðhorf þeirra gagnvart markaðnum. Þar voru allir viðmælendurnir sammála um að ákveðin lognmolla ríkti á markaðnum. Þá hafa vaxtahækkanir, innrás Rússlands í Úkraínu og síhækkandi verðbólga haft óhjákvæmilega áhrif á gengi félaganna, þá helst Play, en félagið er mjög viðkvæmt fyrir ytri áföllum.

Áhugaleysi stórra fjárfesta á Nova-útboðinu má helst rekja til of hás verðlags að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins. Gengið var 5,11 og var það sama í A- og B-bók. Þykir það eðlilegra, þó ekki algilt, að verðleggja A-bókina örlítið lægra en B-bókina til að ná fjöldanum inn. Þá var jafnframt tekin ákvörðun um að stækka útboðið um 20% til að mæta þeim áhuga sem var eftir bréfum í A bók. Þótti mörgum á fjármálamarkaði það óskynsamleg ákvörðun, þar sem félagið átti þegar í erfiðleikum með B-bókina.

Þrátt fyrir að gengi Ölgerðarinnar hafi lækkað frá útboði telja fjárfestar á markaði félagið líklegt til hækkana. Markaðurinn er þungur núna og því eðlilegt að Ölgerðin fylgi þeirri þróun sem er á markaði. Þá segja þeir fyrirtækið standa frammi fyrir miklum tækifærum til vaxtar.

Við samanburð á útboðum er mikilvægt að hafa í huga að aðstæður eru mismunandi á hverjum tíma. Fjögur útboð áttu sér stað síðasta sumar og tvö þetta sumar. Af þeim fjórum félögum sem voru skráð á markað síðasta sumar hækkuðu þrjú á fyrsta viðskiptadegi.

Sömu sögu er ekki að segja af Nova og Ölgerðinni, en bæði lækkuðu á fyrsta viðskiptadegi. Þá er mikilvægt að hafa í huga að síðasta sumar voru vextir lágir og því höfðu sparifjáreigendur ekki aðra kosti til að ávaxta sparnað sinn. Síðan þá hefur margt breyst, vextir hafa hækkað og Úrvalsvísitalan lækkað. Því telst eðlilegt að Nova og Ölgerðin nái ekki sama flugi á fyrstu dögum viðskipta og hin félögin gerðu.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði