Skreiðarvinnsla á Íslandi er ekki í hættu vegna nýrra heilbrigðisreglna Evrópusambandsins (ESB) enda munu íslensk stjórnvöld ekki gangast undir reglur sem hindra aldagamlar hefðir í matvælavinnslu. Undanfarið hefur verið nokkur umræða í Noregi um hvort að skreiðarverkun kunni að vera í hættu sökum nýrrar reglugerðar ESB.

Grétar Már Sigurðsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við Stiklur, vefrit viðskiptaskrifstofunnar að hann telji ástæðulaust að hafa áhyggjur að því að endurskoðuð matvælalöggjöf Evrópusambandsins muni herða að skreiðarverkun hér á landi. ?Umræða um nýjar heilbrigðisreglur Evrópusambandsins í Noregi virðist við fyrstu sýn vera nokkuð úr samhengi við efni reglugerðarinnar. Við erum að skoða þessa reglugerð nánar, en hún er fyrst og fremst safn eldri reglna á þessu sviði. Ég tel afar ólíklegt að reglugerðin hafi áhrif á skreiðarverkun hér á landi, enda eru í henni sérstök ákvæði um undanþágur fyrir hefðbundnar verkunaraðferðir. Ef svo ólíklega vill til að gerðar yrðu athugasemdir við skreiðarverkun þá er ljóst að það kæmi ekki til greina að íslensk stjórnvöld gangist undir reglur frá ESB sem banna hefðbundnar verkunaraðferðir sem eiga sér aldalanga sögu hér á landi.?

Norska matvælastofnunin telur reglugerðina ekki hafa áhrif á skreiðarvinnslu. Tildrög umræðunnar í Noregi voru þau að norska matvælastofnunin réðst í könnun á því hvaða áhrif heilbrigðisreglur ESB kynnu að hafa á skreiðarvinnslu í Noregi. Í kjölfarið urðu norskir skreiðarframleiðendur uggandi um að innleiðing reglugerðarinnar gæti valdið því að þurrkun á skreið utandyra yrði alfarið bönnuð. Skreið er að mestu þurrkuð utandyra á Íslandi, rétt eins og í Noregi, þó jarðhiti hafi einnig verið notaður. Norska matvælastofnunin hefur nýlega lýst því yfir á vef sínum að hún telji að innleiðing reglugerðarinnar myndi ekki hafa áhrif á verkun skreiðar í Noregi. Bendir stofnunin meðal annars á að reglugerðin gerir ráð fyrir að hægt sé að undanskilja rótgrónar vinnsluhefðir á matvælum frá samræmdum heilbrigðisreglum Evrópusambandsins.

Í Stiklum kemur fram að Evrópusambandið samþykkti endurskoðaða matvælalöggjöf í apríl síðastliðnum. Nýja reglugerðin tekur fyrst og fremst aman eldri reglur á þessu sviði. Stjórnvöld í EFTA-ríkjunum eiga nú í viðræðum við Evrópusambandið um hvort taka eigi upp þessar nýju
reglur í EES-samninginn. Í þeim viðræðum er meðal annars tekin afstaða til þess hvort nauðsynlegt er að aðlaga reglugerðina sérstökum aðstæðum í EFTAríkjunum. Því er ekki hægt að segja til um hvort og þá hvenær endurskoðuð matvælalöggjöf Evrópusambandsins muni taka gildi hér á landi.
Verðmæti skreiðarútflutnings 284 milljónir króna Hér á landi er aðeins borðuð ein tegund skreiðar, þ.e. harðfiskur, en öll önnur skreið er framleidd til útflutnings. Verðmæti skreiðarútflutnings Íslendinga nam um 284 milljónum króna á síðasta ári. Mest er flutt út til ríkja í vestanverðri Afríku en eitthvað til Ítalíu.