Af þeim sveitarfélögum sem eru á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum er skuldastaðaneinna alvarlegust hjá Hafnarfjarðarbæ og Reykjanesbæ. Samkvæmt fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna eru skuldirnar hjá Hafnarfjarðarbæ rúmlega 37 milljarðar króna, sem jafngildir um 1,4 milljónum á hvern íbúa. Skuld upp á 17 milljónir evra, rúmlega þrjá milljarða, er á gjalddaga í september nk.

Hjá Reykjanesbæ eru skuldirnar tæplega 22 milljarðar, sem jafngildir 1,5 milljónum á íbúa. Hafnarfjarðarbær ber þunga skammtímaskuldabyrði í samanburði við flest sveitarfélög. Sé mið tekið af fjárhagsáætlun fyrir 2010 nemur hún tæplega 9 milljörðum króna, eða meira en fjórðungi allra skulda og skuldbindinga. Þar af er 6,5 milljarður vegna A-hluta efnahagsreiknings, þ.e. grunnþjónustu sem rekin er fyrir útsvarstekjur. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur bærinn unnið að því að undanförnu að létta á skammatímaskuldunum með því að endurfjármagna lán og lengja í lánum. Í september nk. er lán upp á yfir 3 milljarða á gjalddaga og er unnið að því að endurfjármagna það í samstarfi við Askar Capital. Sú vinna gengur vel, samkvæmt Gerði Guðjónsdóttur fjármálastjóra. Hjá Reykjanesbæ er vandamálið ekki aðeins mikil skuldabyrði heldur ekki síður veikir tekjustofnar. Atvinnuleysi í Reykjanesbæ er um 15% og hvergi meira á landinu. Þá eru skuldbindingar utan efnahags nálægt 12 milljörðum króna sem þrengir fjárhagsstöðuna enn meira. Þær eru m.a. tilkomnar vegna stöðu Fasteignar, sem fjallað er um á síðum Viðskiptablaðsins í dag. Kópavogur er með miklar langtímaskuldir á sínum herðum, um 30 milljarða, en býr að því að tekjustofnar sveitarfélagsins hafa haldist svo til óbreyttir eftir hrunið.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudag.