„Það er afar ánægjulegt að taka þátt í uppbyggingu fjárfestinga fagfjárfesta í þessum eignaflokki,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, í tilkynningu frá bankanum í framhaldi af því að skuldabréf FÍ Fasteignafélags slhf voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni í dag. Fasteignafélagið er að mestu í eigu lífeyrissjóða og með fjárfestingarstefnu sem hefur að markmiði að fjárfesta í vel staðsettu atvinnuhúsnæði með trausta leigutaka. Ábyrgðar- og rekstraraðili félagsins er FÍ Fasteignafélag GP ehf., félag í meirihlutaeigu MP banka. Fyrirtækjaráðgjöf MP banka hafði umsjón með töku skuldabréfanna til viðskipta.

Fram kemur í tilkynningu að fjárfestingargeta FÍ Fasteignafélags er 9,9 milljarðar króna. Skuldabréfaflokkurinn, FIF 13 01, getur orðið 7,94 milljarðar að stærð þegar FÍ hefur nýtt fjárfestingarheimildir sínar að fullu. FIF 13 01 eru verðtryggð vaxtagreiðslubréf og bera fasta 5,0% vexti. Til tryggingar greiðslu skuldabréfanna eru allar fasteignir í eigu félagsins.

Í eignasafni FÍ eru nú þegar 2 fasteignir, Laufásvegur 31, sem hýsir breska og þýska sendiráðið og Álfheimar 74 þar sem Heilsugæslan í Reykjavík er leigutaki.

Á myndinni hér að ofan má sjá Örn V. Kjartansson, framkvæmdastjóri FÍ Fasteignafélags, ásamt Brynjólfi Baldurssyni, forstöðumanni fjármálafyrirtækja, Jóni Eggerti Hallssyni, hjá fyrirtækjaráðgjöf bankans, og forstjórinn Sigurði Atli við skráningu skuldabréfa FÍ Fasteignafélags á markað.