Viðskipti með íbúðabréf voru í forgrunni á skuldabréfamarkaði í dag þar sem velta þeirra var 79% af 18,7 milljarða króna heildarveltu með markflokka.

Ávöxtunarkrafa bréfanna breyttist þó ekki mikið eða frá -1 í 2 punkta.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í dag en þar kemur einnig fram að löngu ríkisbréfin skiptu einnig eitthvað um hendur en kröfubreytingin var öllu dreifðari, frá því að lækka um 3 punkta í 9 punkta hækkun. Krafa stysta ríkisbréfsins hækkaði þó um 21 punkt.   Í morgun efndi Seðlabankinn til útboðs á íbúðabréfum sem honum féllu í skaut við fall viðskiptabankanna fyrir ári síðan. Í Hagsjá kemur fram að meiri eftirspurn var eftir lengri bréfunum en samtals seldi bankinn bréf fyrir 11 milljarða króna að nafnvirði og minnkaði þar með verulega við íbúðabréfaeign sína. Eftir standa 7,5 milljarðar króna í millilöngu bréfunum HFF 24 og HFF 34.   Fram kemur að í útboðinu réð lægsta verð tekins tilboðs verðinu á viðkomandi bréfi til allra sem buðu. Í öllum tilfellum var ávöxtunarkrafa útboðsins örlítið hærri en hún var við lokun markaða á föstudag.