Fyrsta erlenda skuldabréfaútboði ríkissjóðs frá því fyrir hrun er nú lokið. Alls seldust skuldabréf fyrir 1 milljarð Bandaríkjadala, jafngildi um 114 milljarða króna og voru vaxtakjörin þegar upp var staðið 320 punktar ofan á áhættulausa vexti bandarískra ríkisskuldabréfa. Skuldabréfin eru eins og áður hefur komið fram til 5 ára og eru á gjalddaga 16. júní 2016.

Þetta þykja mjög jákvæðar fréttir á markaði og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er það talið jákvætt hversu mikil eftirspurnin var og kjörin í takt við það sem búist var við.

Notað til fjármögnunar

Líklegt er að féð sem safnaðist í útboðinu sé ætlað til endurfjármögnunar á þeim gjalddögum erlendra lána sem ber upp á þessu ári en samanlögð upphæð þeirra er 454 milljónir evra, tæpir 76 milljarðar króna. Seðlabankinn hefur að undanförnu keypt hluta þeirra bréfa á markaði. Upphæðin sem nú fæst bætist við gjaldeyrisvaraforða bankans sem fyrir var nægur til þess að fjármagna alla gjalddaga erlendra lána til ársins 2016.