Donald Trump fyrr­verandi for­seti Banda­ríkjanna þarf að leggja fram tryggingu fyrir 464 milljóna dala sekt í dag. Að öðrum kosti verða eignir hans gerðar upp­tækar af sak­sóknara­em­bætti New York borgar.

Trump, sem var sak­felldur fyrir fjár­svik í síðasta mánuði, fékk 30 daga til að leggja fram tryggingu fyrir sektinni sem sam­svarar um 64 milljörðum króna. Trump hefur ekki tekist að verða sér út um skulda­bréf með veði í eignum.

Sam­kvæmt Financial Times eru val­mögu­leikar for­seta­fram­bjóðandans tak­markaðir en frá og með deginum í dag getur sak­sóknara­em­bættið óskað eftir því að sýslu­maður frysti banka­reikninga Trump.

Það gæti reynst ör­lítið flóknara að kyrr­setja fast­eignir Trumps þar sem þær eru flestar í eigu hluta­fé­laga. Þrátt fyrir að hann sé raun­veru­legur eig­andi fé­laganna gæti sak­sóknara­em­bættið þurft að fá dóms­úr­skurð til að mega kyrr­setja eignirnar.

Á­kveði sak­sóknara­em­bættið að kyrr­setja og síðan selja fast­eignir Trump þarf em­bættið lögum sam­kvæmt að aug­lýsa þær til sölu í lög­birtingar­blaði og fjöl­miðlum í að minnsta kosti 56 daga. Þær yrðu í kjöl­farið seldar á upp­boði.

Sam­kvæmt FT færi sam­bæri­legt ferli, með smá­vægi­legum breytingum, í gang í Flórída ríki á­kveði sak­sóknari að kyrr­setja Mar-a-Lago sveita­setur Trump í Flórída.

Sak­sóknara­em­bættið gæti þó byrjað í dag að hald­leggja lausa­fjár­muni eins og lista­verk en það myndi einungis taka ör­fáar mínútur að fá dóms­úr­skurð fyrir slíkri að­gerð.

Ýmsar undan­tekningar­reglur gilda þó um hald­lagningu lausa­fjár­muna í Banda­ríkjunum. Trump má til dæmis halda eftir einu öku­tæki sem þó ekki vera meira en vera meira virði en 4 þúsund dalir sem sam­svarar um 550 þúsund krónum. Þá má heldur ekki hald­leggja biblíur í eigu for­setans svo dæmi séu tekin.

Sam­kvæmt FT þarf sak­sóknara­em­bætti að stíga var­lega til jarðar þar sem Trump er í miðju for­seta­fram­boði og gæti það haft slæmar stjórn­mála­legar af­leiðingar að ganga of hart fram.

Ef sak­sóknara­em­bættið á­kveður að ganga ekki of hart fram stendur því til boða að frysta eignir Trump sem kemur í veg fyrir að hann komi eignum undan.

Þá gæti em­bættið einnig krafið Trump um að opin­bera skulda­stöðu sína og greina frá öllum veðum sem eru í fast­eigna­veldi hans en eignir hans eru margar mjög skuld­settar.

Þetta gæti komið sér illa fyrir Trump sem hefur í­trekað ýkt auð sinn á opin­berum vett­vangi.

Hvað kostar skulda­bréfið?

Ef Trump takist ó­lík­lega að verða sér út um skulda­bréf til tryggingar á greiðslu sektarinnar gæti það reynst dýrt. Í raun er um að ræða plagg sem stað­festir að skuldari eigi fyrir skuldinni í eignum og lausa­fé en í flestum til­fellum er óskað eftir skulda­bréfi sem tryggi 100% af greiðslu skuldarinnar.

Í til­felli Trump er þó á­ætlað að hann þurfi að leggja fram skulda­bréf til tryggingar á 570 milljónum dala eða sem nemur 120% af skuldinni vegna þeirri stöðu sem hann er í. Á­byrgðar­aðili myndi í flestum til­fellum óska eftir 3% í greiðslu fyrir að gangast í á­byrgð fyrir Trump. Sam­svarar það um 18,5 milljónum dala sem Trump fengi ekki aftur þótt hann yrði sýknaður í á­frýjunar­dóm­stóli.

Hvað með Truth Social?

Á föstu­daginn sam­þykktu hlut­hafar Truth Social að sam­einast sér­hæfða yfir­töku­fé­laginu Digi­tal World Aqu­isition og fara þannig með sam­fé­lags­miðilinn á markað. Hlutur Trump í Truth Social er metinn á 3 milljarða dali en hann má þó ekki selja bréfin fyrr en eftir sex mánuði.

Það er ó­mögu­legt að á­ætla hversu mikil virði bréfin í DWA verða eftir sex mánuði en markaðs­virði Truth Social eftir sam­eininguna er í engu sam­ræmi við raun­veru­legt virði sam­fé­lags­miðilsins.

Ef hann myndi sækjast eftir láni með veði í bréfinu væri á­byrgðar­aðili lánsins að taka á sig tölu­verða á­hættu. Trump gæti reynt að leggja fram tryggingu með sam­blöndu af reiðu­fé, hluta­bréfum í Truth Social og fast­eignum til að dreifa á­hættunni.

Að lokum gæti Trump óskað eftir greiðslu­skjóli en hann þyrfti þá að segjast vera gjald­þrota. Þetta gæfi for­setanum fyrr­verandi tíma til að koma eignum í verð og auka hand­bært fé sitt.

Sam­kvæmt heimildum FT hefur Trump slegið þessa hug­mynd út af borðinu vegna þess það myndi hafa afar nei­kvæð á­hrif á for­seta­fram­boð hans.