Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að frumvörp um skuldamál séu tilbúin og að þau verði birt á þriðjudag. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Sprengisandur á Bylgjunni í morgun. „Hvað varðar skuldamálin þá skilst mér að frumvörpin séu tilbúin og verða væntanlega lögð fram á þriðjudaginn í ríkisstjórn,“ sagði Sigmundur í viðtalinu.

Sigmundur ítrekaði jafnframt að ríkisstjórnin myndi ná að koma fram með öll þau mál sem stefnt væri að áður en fresturinn til þess væri liðinn 31. mars. „Ég er bjartsýnn á að flest þeirra mála sem að klárast núna komi fram fyrir frestinn,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur tjáði sig einnig um makríldeiluna en norski sjávarútvegsráðherrann, Elisabeth Aspaker, skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið þar sem hún sagði Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, fara með rangt mál. Hann sagði greinina fela í sér eftiráskýringar og að framkoma Norðmanna í makríldeilunni væri óásættanleg þegar þeir fóru að skipta sér af því hvernig Ísland gerði tvíhliða samninga við önnur ríki.