Engar eignir voru til upp í rúmlega eins milljarðs króna almennar kröfur í þrotabú fjárfestingarfélagsins Provest á Akureyri. Nær allar kröfurnar eru komnar til vegna afleiðuviðskipta félagsins sem Glitnir lánaði fyrir, rúmar 650 milljónir króna, í febrúar árið 2008. Félagið stóð ekki í skilum og var úrskurðað gjaldþrota seint í júní í fyrra. Eigandi félagsins var ósáttur við úrskurðinn og áfrýjaði honum. Krafan er með dráttarvöxtum frá gjalddaga og áföllnum kostnaði.

Í úrskurði héraðsdóms Norðurlands eystra segir m.a. skuldin byggist á lánveitingum til kaupa á sex afleiðusamningum, sem eigi rætur að rekja til samninga sem gerðir voru í febrúar árið 2008 Með samningunum var helst tekin gjaldfallsáhætta á Kaupþing banka, nánar tiltekið hvort Kaupþing myndi greiða skuld sína af framvirku skuldabréfi í erlendri mynt. Deilt var m.a. um það í grófum dráttum hvort samningar hafi verið gildir eður ei. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar. Þar var úrskurður héraðsdóms staðfestur í ágúst í fyrra.