Skuldatryggingaálag evrópskra fjármálafyrirtækja, samkvæmt Markit iTraxx vísitölunni, hefur ekki verið hærra frá því mælingar hófust í ársbyrjun 2004. Álag á skuldatryggingar evrópskra banka og tryggingafyrirtækja hækkaði um 6 punkta í gær og stóð í 63,5 punktum, að því er Bloomberg-fréttaveitan greinir frá.

Sambærileg vísitala, sem mælir skuldatryggingaálag bandarískra fjármálafyrirtækja, hækkaði um 4 punkta, upp í 85,5 punkta. Skuldatryggingaálag fjárfestingabankans Bear Stearns hefur hækkað um 30 punkta síðustu þrjá daga og stendur nú í 180 punktum - og hefur ekki verið hærra í sex ár. Álag á skuldatryggingar endurspeglar trú fjárfesta á því að fjármálafyrirtæki geti staðið við skuldbindingar sínar og komist hjá tapi. Einn punktur á tryggingu, sem ver skuld að upphæð 10 milljónir Bandaríkjadala í fimm ár, samsvarar eitt þúsund dölum.

Sjá erlendar fréttir Viðskiptablaðsins.