Skuldatryggingaálag á skuldbindingar ríkissjóðs til fimm ára tók kipp upp á við í morgun eftir að hafa haldist nokkuð stöðugt frá því í lok apríl þegar það hafði lækkað ört á einum mánuði.

Er álagið nú komið upp í 220 punkta, sem er um 40 punkta hækkun frá gærdeginum, en það fór hæst í 450 punkta í lok mars.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.

„Þessi hækkun álagsins skerðir lánakjör ríkisins að öllu óbreyttu og gæti sú stóra lántaka ríkissjóðs sem tilkynnt hefur verið um, til þess að auka gjaldeyrisforðann, orðið torveldari en ella. Ekki er ólíklegt að 3,6% gengislækkun krónunnar í gær skýri aukið álag ríkissjóðs í dag,“ segir Greiningadeild Kaupþings.

Samkvæmt Hálffimm fréttum tók skuldatryggingaálag ríkissjóðs að hækka skarpt á haustmánuðum þegar þrengingar hófust af fullri alvöru á lánsfjármörkuðum. Á fyrri hluta ársins 2007 hélst það í 6-10 punktum en var komið upp í 64 punkta um síðustu áramót.