Skuldatryggingaálag ríkissjóðs er nú 468 punktar, ef marka má Bloomberg fréttaveituna. Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Bjarka Bentssyni, hagfræðingi hjá Íslandsbanka, hefur álagið lækkað undanfarið þótt sveiflur séu á milli daga.

Það hafi til dæmis verið 515 punktar í upphafi ágústmánaðar en 662 í júlíbyrjun.

Ísland langhæst meðal iðnríkja

„Þróunin í júlí virðist í takti við almenna þróun skuldatryggingaálags, en í ágúst virðist þróunin fyrir Ísland hafa verið hagstæðari en gengur og gerist með skuldatryggingaálag á ríkissjóði Evrópuríkja," segir Jón Bjarki í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

„Við erum þó enn langhæst meðal iðnríkja í Evrópu, Írland kemur næst á eftir með um það bil 150 punkta."